Byrjað var að sá í öskuna á Sólheimasandi í gær til að reyna að draga úr gjóskufoki. Þar verður sáð í og áburður borinn á um 400 hektara svæði.
Næstu daga verður sáð í leirflög og öskuskafla við Svaðbælisá og víðar undir Eyjafjöllum og á Markarfljótsaurum í þeirri viðleitni að draga úr gjóskufokinu.
Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri segir að baráttan við gjóskuna sé unnin í góðu samstarfi við umhverfisráðuneyti og Landgræðslan muni gera tillögu til stjórnvalda um að tekist verði á við öskuna á um fjögur þúsund hektara svæði. Hann segir að umhverfisráðherra muni væntanlega leggja fram tillögu þess efnis fyrir ríkisstjórn á næstunni.
„Sáningin á Sólheimasandi er fyrsta endurreisnaraðgerðin í kjölfar gjóskufallsins,“ sagði Sveinn Runólfsson í gær, en nánara samtal við hann er að finna í Morgunblaðinu í dag.