Strandsiglingar álitlegur kostur

Flutningaskip í Reykjavíkurhöfn.
Flutningaskip í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Strandsiglingar eru álitlegur kostur miðað við forsendur skýrslu um mat á hagkvæmi strandflutninga á Íslandi sem var unnin fyrir samgönguráðuneytið. Helstu niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á morgunverðarfundi í dag.

Fram kemur að nægjanlegt flutningsmagn virðist vera til staðar, talsverður áhugi sé fyrir hendi meðal flutningskaupenda og hægt sé að bjóða flutningsgjöld sem eru samkeppnishæf við landflutninga.

Í skýrslunni eru dregnar saman upplýsingar um rekstur og afkomu strandsiglingaþjónustu milli Reykjavíkur og nokkurra hafna innanlands.

Þar segir að strandsiglingar henti „þolinmóðum“ vörum ágætlega (byggingarvörur, iðnaðarvörur, hráefni, fiskafurðir, vörur sem bíða útflutnings oþh.). Aðrar vörur (dagvara, rekstrarvörur, ferskvara oþh.) munu ávallt krefjast þess hraða og sveigjanleika í flutningum sem landflutningar bjóða.

Fram kemur að áætlanir bendi til að nægjanlegt flutningsmagn af vörum sem henti strandflutningum sé fyrir hendi til að nýta eitt strandferðaskip af stærðinni 180-230 TEU (tuttugu feta einingar).  Áætlað flutningsmagn milli Reykjavíkur og Vestfjarða/Norðurlands sé um 18.000 TEU á ári. Í áætlun skýrslunnar sé gert ráð fyrir að um 14.400 TEU (7.200 fjörutíu feta einingar) verði fluttar á ári með skipinu í 48 ferðum. Þetta þýði að meðaltali um 150 TEU pr. ferð. 

Einnig kemur fram að slit á vegum og viðhaldskostnaður vega minnki líklega um 100-200 milljónir króna á ári hefjist strandsiglingar. Auk þess muni öryggi almennings á vegum væntanlega aukast vegna minni aksturs stórra bíla sem nemi um 3,2 milljónum kílómetra á ári. Svifryksmengun á vegsvæðum minnki.

Tekjur hafna aukast um 161 m.kr. með tilkomu strandsiglinga. Þar af eru um 115 m.kr vegna vörugjalda sem flutningskaupendur greiða og um 46 m.kr. vegna hafnargjalda sem skipið greiðir.

Gera má ráð fyrir að í kjölfar strandflutninga fækki störfum vörubílstjóra en á móti fá um 14 manns fá störf við strandflutningana, þar af um 9 á skipinu og 5 í landi á skrifstofu og við afgreiðslu skipsins. Auk þess skapast tekjur og störf í höfnum við afgreiðslu skipa og umsjón hafnarmannvirkja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka