Velta í dagvöruverslun dróst saman um 3,7% á föstu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra en jókst um 3,4% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum dróst velta dagvöruverslana saman í maí um 3,8% frá sama mánuði árið áður. Verð á dagvöru hækkaði um 7,4% á síðastliðnum 12 mánuðum.
Sala áfengis dróst saman um 22,7% í maí miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 9,4% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam samdráttur í veltu áfengis í maí 13,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 17,2% hærra í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra, að því er Rannsóknasetur verslunarinnar segir.
Fataverslun var 8,2% minni í maí miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og nær óbreytt á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum var 8,9% hærra í maí síðastliðnum en í sama mánuði ári fyrr.
Velta skóverslunar minnkaði um 12,8% í maí á föstu verðlagi og jókst um 4,4% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði um 19,7% frá maí í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 27,2% minni í maí en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi og var 21,2% minni á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með rúm minnkaði um 17,9% frá því í fyrra á föstu verðlagi. Verð á húsgögnum var 8,1% hærra í mai síðastliðnum miðaða við sama mánuð í fyrra.
Sala á raftækjum í maí minnkaði um 9,1% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og um 2,7% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á raftækjum hækkaði um 7,0% frá maí 2009.
Velta dagvöruverslana fyrstu fimm mánuði þessa árs var 1,9% minni en á sama tímabil í fyrra að raunvirði. Það er mun minni samdráttur en í öðrum tegundum verslana.Til dæmis var velta áfengisverslunar fyrstu fimm mánuði þessa árs 12,4% minni en á sama tímabili síðasta árs. Leita þarf aftur til ársins 2005 til að finna sambærilegt fimm mánaða tímabil með minni raunveltu áfengis.
Sala á húsgögnum er enn töluvert minni en í fyrra en hefur samt haldist nokkuð jöfn í hverjum mánuði það sem af er þessu ári. Sala húsgagna í maí síðastliðunum var 59,3% minni en í maí 2008 að raunvirði.
Athyglisvert er að föt hafa hækkað mun minna í verði en skór. Verð á fatnaði var 8,9% hærra í maí en í sama mánuði í fyrra á meðan verð á skóm hækkaði um 19,7% á sama tíma. Sala á fötum og skóm hefur verið nokkuð jöfn það sem af er þessu ári að raunvirði.
Fyrstu fimm mánuði þessa árs var velta raftækjaverslana 4,8% minni en sömu mánuði í fyrra að raunvirði. Raftækjaverslun dróst mikið saman við efnahagshrunið líkt og önnur sérvöruverslun og hefur ekki náð sér á strik síðan þá.
Enn hækkar neysluverð umfram laun. Þannig mældist kaupmáttur launa 4,0% minni í apríl síðastliðnum en á sama tíma í fyrra. Innlend greiðslukortanotkun minnkaði á tímabilinu janúar til apríl um 3,8% að raunvirði frá sama tíma í fyrra. Forvitnilegt verður að sjá hverju spáð verður um einkaneyslu í nýrri þjóðhagspá sem væntanleg er innan skamms.