Auglýsa hefði átt á EES-svæðinu

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kynnti Búðarhálsvirkjun nýverið
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kynnti Búðarhálsvirkjun nýverið mbl.is/Rax

Kærunefnd útboðsmála hefur fallist á það með tveimur verktakafyrirtækjum að Landsvirkjun hefði átt að bjóða út upphafsverk Búðarhálsvirkjunar á evrópska efnahagssvæðinu, EES. Segir í tilkynningu frá Landsvirkjun að niðurstaðan sé vonbrigði þar sem þetta geti tafið framkvæmdir við virkjunina. Þeir sem kærðu niðurstöðu útboðs Landsvirkjunar höfðu átt lægsta boðið í verkið en var synjað og hærra tilboði tekið.

Í yfirlýsingu sem Landsvirkjun hefur sent á fjölmiðla kemur fram að kærunefnd útboðsmála birti í gær úrskurð í kærumáli Verktakafélagsins Glaums ehf. og Árna Helgasonar ehf. gegn Landsvirkjun.

Tildrög málsins eru þau að með kæru dagsettri 21. apríl 2010 kærði Verktakafélagið Glaumur ehf. og Árni Helgason ehf. synjun Landsvirkjunar á tilboði fyrirtækjanna í upphafsverk Búðarhálsvirkjunar, en fyrirtækin tvö voru saman lægstbjóðandi í verkið.  Landsvirkjun synjaði lægstbjóðanda á grundvelli þess að fyrirtækin tvö uppfylltu ekki skilyrði útboðsgagna um hæfni. Alls voru bjóðendur í verkið sjö, samkvæmt yfirlýsingu frá Landsvirkjun.

„Í kæru lægstbjóðanda var meðal annars gerð sú krafa að útboð Landsvirkjunar yrði ógilt á grundvelli þess að bjóða hefði átt verkið út á evrópska efnahagssvæðinu.  Megin niðurstaða kærunefndar er sú að fallist var á þá kröfu kæranda að auglýsa hefði átt útboðsverkið á evrópska efnhagssvæðinu.

Niðurstaða úrskurðarins er vonbrigði fyrir Landsvirkjun, þar sem hún hefur í för með sér að umtalsverðar tafir verða á upphafi framkvæmda við Búðarhálsvirkjun.  Líklegt er í ljósi úrskurðarins og þess tíma sem útboðsferli innan evrópska efnahagssvæðisins tekur að framkvæmdir við Búðarháls hefjist í fyrsta lagi á haustmánuðum þessa árs," segir í yfirlýsingu frá Landsvirkjun.

Í úrskurði kærunefndar kemur fram að ljóst er að Landsvirkjun braut gegn tilskipum Evrópuþingsins og ráðsinsog það hafi óhjákvæmilega það í för með sér að útboðið í heild sinni er ekki lögmætt.

Í gær var skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf á milli Landsvirkjunar annars vegar og China International Water & Electric Corporation (CWE) og Export-Import Bank of China (Exim Bank) .

Yfirlýsingin felur ekki í sér skuldbindingu af hálfu þessara þriggja aðila en í henni kemur fram áhugi CWE á að bjóða í framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun sem og áhugi Landsvirkjunar á að fá tilboð frá fyrirtækinu, samkvæmt fréttatilkynningu sem Landsvirkjun sendi frá sér í gær.

Þá lýsir Exim Bank yfir áhuga á að fjármagna hluta verksamninga sem CWE kann að vinna fyrir Landsvirkjun að undangengnu útboði.

Hér er hægt að lesa frétt um hverjir buðu í verkið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert