Kostar hvern íbúa 551.000 kr.

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna tæknilegs gjaldþrots Seðlabanka Íslands nemur 175 milljörðum króna. Það gera 551 þúsund kr. á hvern íbúa í landinu, en 654.200 kr. á hvern skattgreiðanda. Heildarkostnaður á hverja fjögurra manna fjölskyldu er því rétt rúmar 2,2 milljónir kr.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, en hún spurði um kostnað ríkissjóðs vegna bankahrunsins.

Sigríður Ingibjörg spurðist einnig fyrir um heildarkostnað vegna eiginfjárframlaga ríkisins og víkjandi lána til viðskiptabankanna þriggja, þ.e. Arion banka, Íslandsbanka og NBÍ. Í svari ráðherra kemur fram að heildarkostnaður ríkissjóðs nemur 196 milljörðum kr. en það þýðir að fjárbinding á hvern skattgreiðanda nemur tæpum 733 þús. kr. og kostnaður á hverja fjögurra manna fjölskyldu er tæpar 2,5 milljónir kr.

Þingmaður vildi fá mat ráðherra á því hvort hann teldi ástæðu til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrrgreindar skuldbindingar og framlög ríkissjóðs. Hún spurði ráðherra um annars vegar kosti og hins vegar galla slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Einnig spurði hún ráðherra hvort hann teldi ásættanlegt að almenningur beri skuldaklafa óreiðumanna án þess að samþykkja slíkt fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í svari ráðherra koma fram að hann telji þjóðaratkvæðagreiðslur henta vel til að leyfa kjósendum að taka ákvarðanir er varða stór og afdrifarík mál þar sem sýnt er að í atkvæðagreiðslunni liggi fyrir skýrir valmöguleikar sem kjósendur geti tekið afstöðu til.

„Er þá lykilatriði í því sambandi að sú spurning eða þær spurningar sem afstaða er tekin til í atkvæðagreiðslunni sé þannig að kjósendur standi frammi fyrir skýrum kostum og að einhvers konar niðurstaða eða lausn fáist í viðkomandi máli með úrslitum kosninganna,“ skrifar ráðherra og bætir við:

„Varðandi mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um þau fjölmörgu mál sem fyrirspurn þessi tekur til er vert að hafa eftirfarandi í huga. Margt af því tekur til skuldbindinga sem ríkisvaldið hefur orðið að taka á sig vegna gríðarlegra áfalla á íslenskum fjármálamarkaði. Hrun íslensku bankanna með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð er afleiðing af ákvörðunum í viðskiptum og stjórnmálum.

Þjóðaratkvæðagreiðslu um afleiðingar af ákvörðunum í stjórnmálum eins og þeim er hlotist hafa af einkavæðingu ríkisbankanna er erfitt að láta eiga sér stað eftir á þó að vissulega hefði mátt kjósa um þá ráðstöfun að einkavæða bankana á sínum tíma.“

Að mati ráðherra á almenningur ekki að bera „skuldaklafa óreiðumanna“ og bendir á að ríkisstjórnin kappkosti að draga úr því tjóni sem varð við fall bankanna og lágmarka skaða almennings og íslensks þjóðarbús.

„Í því samhengi er rétt að benda á að erlendar skuldir þjóðarbúsins voru rúmlega 600% af vergri landsframleiðslu fyrir hrun bankanna en standa nú í um 300% af vergri landsframleiðslu og eiga eftir að lækka enn meira þegar frekari afskriftir skulda eiga sér stað. 

Um áhrif slíkrar atkvæðagreiðslu ef fram færi á íslenskt atvinnulíf er erfitt að fullyrða, sbr. það sem áður sagði að hinu liðna verður ekki breytt með kosningu þótt við fegin vildum.“


Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert