Saka Árna Pál um aðför gegn kvennastéttum

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is

Kjaramálanefnd Sjúkraliðafélags Íslands hefur sent frá sér harðorða ályktun vegna greinar sem Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, ritaði í Fréttablaðið fyrr í vikunni þar sem hann leggur til að laun opinberra starfsmanna verði fryst til ársins 2013.

Krefjast sjúkraliðar þess að sú launafrysting sem hafi verið í fjórtán mánuði verði aflétt og þegar samið við félagið sem hefur verið með lausa samninga þann tíma.

„Með yfirlýsingu sinni lýsir félagsmálaráðherra opinberum kvennastéttum stríð á hendur og gengur gegn þeim mikla samstarfsvilja sem sýndur hefur verið. Sjúkraliðafélag Íslands hefur verið með lausa samninga í 14 mánuði án þess að nokkuð hafi þokast í samningsátt.

Kjaramálanefnd Sjúkraliðafélagsins krefst þess að sú launafrysting sem verið hefur verði aflétt og nú þegar verði samið við félagið," segir m.a. í ályktun frá fundi kjaramálanefndar Sjúkraliðafélags Íslands í gær.

Ályktunin fer hér á eftir:

„Innan BSRB eru 20.000 félagsmenn og þar af eru um 14.000 konur. Að stærstum hluta eru konur innan BSRB láglaunahópur sem starfa við þjónustu við sjúka, fatlaða, öryrkja og aldraða. Félagsmenn Sjúkraliðafélags Íslands eru þar ekkert undanskildir. Byrjunarlaun sjúkraliða hjá ríkinu eru 201.200 krónur eftir rúmlega þriggja ára nám á framhaldsskólastigi. Laun almenns sjúkraliða ná ekki að hækka meir en 50.000 k. eftir margra ára starfsaldur.

Á meðan hægri hönd félagsmálaráðherra skrifar upp á að farið sé í byggingu stórhýsa, m.a. byggingu nýs sjúkrahúss og hjúkrunarheimila og skapa með því hefðbundin karlastörf , skrifar sú vinstri undir yfirlýsingu um að konur í opinberum störfum, þar á meðal sjúkraliðar, greiði það með frystingu launa og gríðarlegri kjaraskerðingu.

Ekki leggst nú mikið fyrir kappann . Opinberir starfsmenn hafa nú þegar tekið á sig verulega kjaraskerðingu og sýnt í verki skilning sinn á þeirri erfiðu stöðu sem samfélagið er í.

Með yfirlýsingu sinni lýsir félagsmálaráðherra opinberum kvennastéttum stríð á hendur og gengur gegn þeim mikla samstarfsvilja sem sýndur hefur verið. Sjúkraliðafélag Íslands hefur verið með lausa samninga í 14 mánuði án þess að nokkuð hafi þokast í samningsátt. Kjaramálanefnd Sjúkraliðafélagsins krefst þess að sú launafrysting sem verið hefur verði aflétt og nú þegar verði samið við félagið. "

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert