Veiðimenn beðnir að sleppa stórlaxi

Þorsteinn J. er vanur veiðimaður og sleppir hér góðum laxi …
Þorsteinn J. er vanur veiðimaður og sleppir hér góðum laxi í Vatnsdalsá sem er þekkt fyrir stórlaxa en öllum laxi er sleppt í Vatnsdalsá. mbl.is/Einar Falur

Forstjóri Veiðimálastofnunar, Sigurður Guðjónssonar, biður laxveiðimenn um að gefa stórlöxum grið þetta sumarið enda fáir slíkir laxar orðnir eftir í íslenskum laxveiðiám.

„Laxveiðin er byrjuð.   Um síðustu helgi hófst laxveiðin þetta árið. Eðlilega voru veiðimenn fullir tilhlökkunar, langþráður veiðitími loksins hafinn.  Fyrstur í árnar á sumrin er stórlax, lax sem hefur verið 2 ár í sjó. 

Veiðin gekk vel, allmargir laxar veiddust fyrstu dagana. Menn gerðust spámannlegir um veiðivertíðina og myndir birtust af veiðimönnum með feng sinn. 

Sumar myndirnar eru af mönnum á þessari góðu stund að sleppa bráð sinni lifandi aftur í ána en aðrar af mönnum með glæsilegan feng sinn, stóra laxa, nýveidda og blóðuga.  Sannanlega skemmtilegar myndir sem við vildum gjarnan sjá í framtíðinni og samfagna veiðimönnum. En nú er betra að staldra við.

Stórlaxar eru orðnir mjög fáliðaðir.

Stórlaxi hefur hnignað mikið og er einungis brot af því sem áður var.  Ástæður þessa eru óþekktar en talið er að skilyrði í hafinu á uppeldisslóðum stórlaxins hafi versnað.  Þetta ástand hefur nú varað í mörg ár og stórlaxi heldur áfram að hnigna.  

Það eina sem við getum gert til að varðveita þessa erfðaþætti í stofninum er að hlífa stórlaxi við veiðum eða sleppa slíkri veiði lifandi aftur í árnar.  Áframhaldandi veiði mun eyða stórlaxinum. Veiðimálastofnun hefur nú í mörg ár hvatt til að stórlaxi sé hlíft, en of hægt gengur.  Síðasta sumar var um 57 % stórlaxa sleppt, en stórlaxar eru orðnir mjög fáir og nánast horfnir úr sumum ám. 

Síðustu ár hafa veiðst á milli 5 og 8 þúsund stórlaxar á landinu en áður veiddust milli 15 og 20 þúsund á ári.  Þessi fækkun þýðir að veiðibyrjun hefur seinkað í mörgum ám þar sem stórlaxinn hélt uppi veiði fyrri hluta sumars, uns smálax (1 ár í sjó) mætir í árnar.  Í ám þar sem öllum stórlaxi er sleppt hefur hann betur haldið sínum hlut, sem gefur vonir um að hægt sé að halda í stórlaxinn. 

Vonandi kemur sú tíð að sjávarskilyrði breytast aftur stórlaxi í hag.  Þá er mikilvægt að þessi erfðaþáttur sé enn til staðar. Því eru myndir af veiðimönnum með feng sinn í ljósi þessa aðstæðna ekki svo skemmtilegar núna.  Í

nýtingaráætlun veiðifélaga er regla að fylgi ákvæði um stórlaxavernd, en einhverra hluta vegna þá er ekki farið eftir slíkum ákvæðum.  Ef við viljum áfram sjá glaða veiðimenn í upphafi sumars þá verðum við að hlífa stórlaxinum, að öðrum kosti eru þetta ef til vill síðustu slíkar myndirnar sem við munum sjá.Því hvetjum við alla sem að veiði koma að drepa ekki stórlax, þetta á við veiðifélög, netaveiðibændur og stangveiðimenn.  Einungis þannig getum við átt von á því að njóta þessara tignarlegu fiska í framtíðinni," segir í pistli Sigurðar á vef Veiðimálastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert