Veiðimenn beðnir að sleppa stórlaxi

Þorsteinn J. er vanur veiðimaður og sleppir hér góðum laxi …
Þorsteinn J. er vanur veiðimaður og sleppir hér góðum laxi í Vatnsdalsá sem er þekkt fyrir stórlaxa en öllum laxi er sleppt í Vatnsdalsá. mbl.is/Einar Falur

For­stjóri Veiðimála­stofn­un­ar, Sig­urður Guðjóns­son­ar, biður laxveiðimenn um að gefa stór­löx­um grið þetta sum­arið enda fáir slík­ir lax­ar orðnir eft­ir í ís­lensk­um laxveiðiám.

„Laxveiðin er byrjuð.   Um síðustu helgi hófst laxveiðin þetta árið. Eðli­lega voru veiðimenn full­ir til­hlökk­un­ar, langþráður veiðitími loks­ins haf­inn.  Fyrst­ur í árn­ar á sumr­in er stór­lax, lax sem hef­ur verið 2 ár í sjó. 

Veiðin gekk vel, all­marg­ir lax­ar veidd­ust fyrstu dag­ana. Menn gerðust spá­mann­leg­ir um veiðivertíðina og mynd­ir birt­ust af veiðimönn­um með feng sinn. 

Sum­ar mynd­irn­ar eru af mönn­um á þess­ari góðu stund að sleppa bráð sinni lif­andi aft­ur í ána en aðrar af mönn­um með glæsi­leg­an feng sinn, stóra laxa, ný­veidda og blóðuga.  Sann­an­lega skemmti­leg­ar mynd­ir sem við vild­um gjarn­an sjá í framtíðinni og sam­fagna veiðimönn­um. En nú er betra að staldra við.

Stór­lax­ar eru orðnir mjög fáliðaðir.

Stór­laxi hef­ur hnignað mikið og er ein­ung­is brot af því sem áður var.  Ástæður þessa eru óþekkt­ar en talið er að skil­yrði í haf­inu á upp­eld­is­slóðum stór­lax­ins hafi versnað.  Þetta ástand hef­ur nú varað í mörg ár og stór­laxi held­ur áfram að hnigna.  

Það eina sem við get­um gert til að varðveita þessa erfðaþætti í stofn­in­um er að hlífa stór­laxi við veiðum eða sleppa slíkri veiði lif­andi aft­ur í árn­ar.  Áfram­hald­andi veiði mun eyða stór­lax­in­um. Veiðimála­stofn­un hef­ur nú í mörg ár hvatt til að stór­laxi sé hlíft, en of hægt geng­ur.  Síðasta sum­ar var um 57 % stór­laxa sleppt, en stór­lax­ar eru orðnir mjög fáir og nán­ast horfn­ir úr sum­um ám. 

Síðustu ár hafa veiðst á milli 5 og 8 þúsund stór­lax­ar á land­inu en áður veidd­ust milli 15 og 20 þúsund á ári.  Þessi fækk­un þýðir að veiðibyrj­un hef­ur seinkað í mörg­um ám þar sem stór­lax­inn hélt uppi veiði fyrri hluta sum­ars, uns smá­lax (1 ár í sjó) mæt­ir í árn­ar.  Í ám þar sem öll­um stór­laxi er sleppt hef­ur hann bet­ur haldið sín­um hlut, sem gef­ur von­ir um að hægt sé að halda í stór­lax­inn. 

Von­andi kem­ur sú tíð að sjáv­ar­skil­yrði breyt­ast aft­ur stór­laxi í hag.  Þá er mik­il­vægt að þessi erfðaþátt­ur sé enn til staðar. Því eru mynd­ir af veiðimönn­um með feng sinn í ljósi þessa aðstæðna ekki svo skemmti­leg­ar núna.  Í

nýt­ingaráætl­un veiðifé­laga er regla að fylgi ákvæði um stór­laxa­vernd, en ein­hverra hluta vegna þá er ekki farið eft­ir slík­um ákvæðum.  Ef við vilj­um áfram sjá glaða veiðimenn í upp­hafi sum­ars þá verðum við að hlífa stór­lax­in­um, að öðrum kosti eru þetta ef til vill síðustu slík­ar mynd­irn­ar sem við mun­um sjá.Því hvetj­um við alla sem að veiði koma að drepa ekki stór­lax, þetta á við veiðifé­lög, neta­veiðibænd­ur og stang­veiðimenn.  Ein­ung­is þannig get­um við átt von á því að njóta þess­ara tign­ar­legu fiska í framtíðinni," seg­ir í pistli Sig­urðar á vef Veiðimála­stofn­un­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert