Skráð atvinnuleysi í maí 2010 var 8,3% en að meðaltali 13.875 manns voru atvinnulausir í maí og minnkar atvinnuleysi um 5,4% frá apríl, eða um 794 manns að meðaltali. Yfirleitt batnar atvinnuástandið frá maí til júní. Í júní 2009 minnkaði atvinnuleysi úr 8,7% í maí í 8,1% í júní. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í júní minnki og verði á bilinu 7,7%-8,1%.
Atvinnulausum fækkar mest í mannvirkjagerð
Mest fækkar körlum á atvinnuleysisskrá eða um 727 að meðaltali en konum fækkar um 67 að meðaltali. Fækkunin er hlutfallslega meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu eða um 8,5% á landsbyggðinni og um 4% á höfuðborgarsvæðinu.Mest fækkar atvinnulausum í mannvirkjagreinum eða um 367 manns.
Einungis 3,6% atvinnuleysi á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra
Atvinnuleysið er 9,1% á höfuðborgarsvæðinu en 7% á landsbyggðinni. Mest er það á Suðurnesjum 13,5%, en minnst á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra 3,6%.
Atvinnuleysið er 8,8% meðal karla og 7,7% meðal kvenna.
4.620 hafa verið atvinnulausir í meira en ár
Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 8.723 og fækkar um 194 frá lokum apríl og er um 59% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok maí. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fækkar úr 4.662 í lok apríl í 4.620 í lok maí.
18% atvinnulausra yngri en 25 ára
Alls voru 2.735 á aldrinum 16-24 ára atvinnulausir í lok maí en 3.024 í lok apríl eða um 18% allra atvinnulausra í maí og fækkar um 289 frá því í apríl. Í maí 2009 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 3.734 og hefur því fækkað um nærri 1.000 frá maí 2009.
Alls voru 2.279 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok maí, þar af 1.336 Pólverjar eða um 59% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Langflestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í byggingariðnaði eða 656.
Samtals voru 2.287 af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok maí í hlutastörfum, þ.e. þeir sem eru í reglubundnum hlutastörfum eða með tilfallandi eða tímabundið starf á síðasta skráningardegi í maí. Þetta eru um 15% af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok maí.
Af þeim 2.287 sem voru í hlutastörfum í lok maí voru 1.357 einstaklingar sem sóttu um atvinnuleysisbætur skv. lögum um minnkað starfshlutfall frá því í nóvember 2008.
Í lok maí voru 98 sjálfstætt starfandi skráðir á atvinnuleysisskrá vegna samdráttar í rekstri skv. áður nefndum lögum. Þeim fækkar um 111 frá apríl þegar þeir voru 209.
Alls voru 3.253 skráðir í sérstök úrræði hjá Vinnumálastofnun í maí skv. frumúttekt stofnunarinnar en auk þess fer mikill fjöldi í ráðgjafaviðtöl og á kynningarfundi. Tæplega 43 af hundraði voru á aldrinum 16-24 eða 1.391. Hjá fræðslumiðstöð atvinnulífsins voru 221 manns í maí, þá voru 147 í sérstökum átaksverkefnum hjá stofnuninni og 90 voru með frumkvöðlasamning eða unnu að þróun eigin viðskiptahugmyndar í mánuðinum.
Námsamningar í gildi í maí voru 799. Alls nutu 779 manns góðs af námstengdum úrræðum í maí og 330 af starfstengdum. Í starfsþjálfun eða reynsluráðningu voru 266 og í ýmsum smiðjum og klúbbum voru 233 og 388 manns voru í grunnúrræðum í mánuðinum.
Útlendingar í úrræðum voru 409 í maí, 261 í íslensku og samfélagsnámskeiðum en einnig 15 með námssamning, 23 voru í starfsþjálfun eða reynsluráðningu, 7 með frumkvöðlasamning eða unnu að þróun eigin viðskiptahugmyndar og þá 103 í ýmsum annars konar úrræðum. Vinnumálastofnun styður einnig heilsueflingu atvinnuleitenda og útdeilir meðal annars fjölda líkamsræktarkorta.