Ósáttir við þjóðnýtingu vatns

Bitist var um vatnaréttindi á fundi iðnaðarnefndar í morgun
Bitist var um vatnaréttindi á fundi iðnaðarnefndar í morgun mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ekki hægt að túlka ummæli formanns iðnaðarnefndar, Skúla Helgasonar, öðruvísi en svo að til standi að þjóðnýta vatnsréttindi í landinu. Það þýði háar eignaréttarbætur til landeigenda sem átt hafa vatnsréttindi á landi sínu öldum saman.

Tryggvi Þór Herbertsson, Sjálfstæðisflokki og nefndarmaður í iðnaðarnefnd, segir að meirihluti iðnaðarnefndar hafi í morgun svikið samkomulag milli stjórnar- og stjórnarandstöðunnar sem var gert árið 2006 um að ná sameiginlegri niðurstöðu í vatnalagamálinu í samræmi við það sem samþykkt var í þverpólitískri nefnd árið 2008.

Miklar deilur urðu um efni vatnalaganna á þingi árið 2006 einkum um hvort verið væri að gera breytingu á eignarréttarákvæði laganna varðandi eignarrétt landeigenda á vatnsauðlindum í eignarlöndum þeirra. 

Að sögn Tryggva áttu vatnalögin umdeildu að taka gildi þann 1. júlí nk. en minnihlutinn í nefndinni hafði lagt til að lagasetningu yrði frestað til áramóta svo hægt að ná þverpólitískri sátt í málinu líkt og vatnalaganefnd hafi lagt til árið 2008. Þetta hafi verið virt af vettugi af meirihlutanum í morgun.

Einungis nokkrir dagar eru til þingloka og segir Tryggvi Þór að ljóst sé að það verði aldrei samþykkt af minnihlutanum að frumvarpið verði keyrt í gegn án umræðu. Hann efist ekki um að fjölmargir muni vilji tjá sig á Alþingi um það. Frumvarpið er ekki komið á dagskrá þingsins enda einungis samþykkt úr nefnd í morgun. Það verður að minnsta kosti ekki tekið fyrir á morgun nema þá með afbrigði.

Að sögn Tryggva Þórs snérist umræðan á fundi iðnaðarnefndar í morgun  mest um meðferð á málinu en ekki efnislega umræðu á frumvarpinu. Það sem minnihlutinn í nefndinni vill er að haldið verði í dómaframkvæmd í áttatíu ár sem byggi á vatnalögum frá 1923. En að löggjöfin verði skýrari um eignarrétt á vatnsréttindum.

Aftur á móti sé það andinn í ríkisstjórninni að þjóðnýta vatnsréttindi, að byggja á sameignarskipulagi í stað séreignarskipulagi eins Ísland og Íslendingar hafi byggt á allt frá upphafi. 

Tryggvi Þór bendir á að um 75% af vatnsréttindum séu þegar í eigu ríkisins þannig að umræðan snúi að þeim 25% sem eftir standi. Stjórnin virðist vilja sölsa undir sig þau 25% sem eftir standa í andstöðu við  lögin frá árinu 1923 en í þeim eru ákvæði sem tryggja rétt almennings á notkun vatnsréttinda.

Lögin frá árinu 2006 staðfesta dómaframkvæmdina sem hér hafi verið við lýði í áratugi, að réttindin séu ekki tekin af neinum, til að mynda sveitarfélögum og að ekki sé hægt að skerða vatnsréttindi hjá bændum. Lögin frá árinu 2006 kveða á, að sögn Tryggva Þórs að greiða þurfi bændum bætur. Bendir Bjarni á að það sé það sem Landsvirkjun sé að semja um varðandi Þjórsá. Að landeigendur fái greitt fyrir vatnsréttindi sín. Nú virðist hins vegar meirihlutinn á þingi vilja seilast inn á ótvíræðan rétt bænda, segja þeir Bjarni og Tryggvi Þór.

Vatnalögin rædd í fyrirspurnartíma á þingi

Málið kom til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í hádeginu. Bjarni Benediktsson spurði Össur Skarphéðsson sem fv. iðnaðarráðherra hvort hann teldi það framtíðarsýn hans að ríkið myndi þjóðnýta vatnsréttindi. Össur hefði sem iðnaðarráðherra samþykkt að fresta gildistöku nýrra vatnalaga og setja á fót þverpólitíska nefnd til að endurskoða löggjöfina. Nú væri iðnaðarnefnd að gefa þau skilaboð að afnema ætti vatnsréttindi landeigenda.

Össur svaraði því m.a. til að í málinu væri ágreiningur um grundvallarhugmyndafræði. Hann hefði verið á móti því á sínum tíma að slá eignarréttindum á öll vatnsréttindi í landinu. Upprunaleg vatnalög frá árinu 1933 stæðust ágætlega tímans tönn. Þau lög hefðu m.a. byggst á Grágás um að vatnið ætti að vera í almannaeigu en ekki í einkaeign.  Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hefðu á þeim tíma „sett einhverja slykju" yfir málið og minnt á að samstaða hefði verið í endurskoðunarnefndinni hjá fulltrúum allra flokka, m.a. fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Nú væri hinn gamli Sjálfstæðisflokkur að gæjast fram gegnum tjöldin og gaman væri að sjá hvort að flokkurinn hefði náð tökum á hinum nýja Framsóknarflokki um að styðja áfram „þessa einkavæðingarvitleysu", eins og Össur orðaði það.

Minnti Bjarni á að ríki og sveitarfélög væru eigendur að 60-70% vatnsréttinda í landinu. Sagði hann Össur vera að mæla fyrir því að öll vatnsréttindi kæmust í almannaeign, sem þýddi eignaupptöku landeigenda. Eigendur lands, sem byggju yfir vatnsauðlindum, væru að fá greitt fyrir nýtingarréttinn, og tók Bjarni sem dæmi vatnsfyrirtæki Jóns Ólafssonar í sveitarfélaginu Ölfusi.


Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is/Rax
Tryggvi Þór Herbertsson
Tryggvi Þór Herbertsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert