Óttast landflótta

Lilja Mósesdóttir
Lilja Mósesdóttir Mbl.is

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, óttast landflótta ef laun ríkisstarfsmanna verða skert of mikið. Hún segir að tillagan um launafrystingu geti aðeins gengið, ef hún nái jafnt til ríkis- og einkageirans.

„Mér finnst ansi langt gengið að refsa ríkisstarfsmönnum fyrir kreppu sem rekja má til einkageirans. Ég vil skoða launaþróun mjög nákvæmlega á einkamarkaðinum áður en ég samþykki launafrystingu - hvað þá launalækkun - í ríkisgeiranum,“ segir Lilja. Hún bætir við að fara þurfi varlega í niðurskurð hjá hinu opinbera á krepputímum. Annars sé hætta á því að niðurskurðarkreppa taki við af fjármálakreppunni.

Lilja óttast að verið sé að fara svipaða leið og í upphafi tíunda áratugarins, þegar ríkisstjórnin samþykkti bráðabirgðalög til að afnema leiðréttingu launa ríkisstarfsmanna í samræmi við einkageirann. „Þetta varð til þess að ríkisstarfsmenn sem höfðu fjárfest í menntun voru á mun lægri launum en fólk með millimenntun í einkageiranum. Margt af þessu fólki flúði land. Það treysti sér ekki til að standa undir námslánum og fasteignaskuldum á þeim launum sem voru þá í boði.“

„Ég óttast landflótta og fátækt meðal láglauna ríkisstarfsmanna. Við megum ekki skerða laun ríkisstarfsmanna langt umfram það sem er að gerast í einkageiranum,“ segir þingmaðurinn og bætir við að ríkisstarfsmenn séu ekki minna skuldsettir en aðrir.

Lilja bendir á að lánin hækki í samræmi við verðbólgu. „Með því að frysta laun búum við til ákveðið misgengi ofan á það sem að nú þegar hefur orðið, á meðan við tökum ekki verðtrygginguna úr sambandi eða setjum þak á hana,“ segir Lilja. „Ég óttast að launafrysting á sama tíma og við erum með verðtryggð fasteignalán mun auka misgengi á milli launa og lána.“

Þingmaðurinn segist geta sætt sig við almenna launafrystingu ef hún nái ekki bara til ríkisgeirans. „Það yrði þá gert með því að lofa launþegum að jafnvel afnema vertrygginguna í áföngum,“ segir Lilja að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert