Setja sektarákvæði inn í búvörulög

Kýr á Vorsabæ í Austur-Landeyjum.
Kýr á Vorsabæ í Austur-Landeyjum. Eggert Jóhannesson

Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra hefur lagt fram á þingi frumvarp til breytinga á búvörulögum sem festir í sessi forgang greiðslumarkshafa að innanlandsmarkaði. Málið er búið að vera lengi til umfjöllunar en andstaða var við það innan þingflokks Samfylkingar.


Þegar Mjólka hóf starfsemi á árinu 2005 tók fyrirtækið við mjólk sem framleidd var án styrkja og eins keypti það mjólk af bændum sem framleidd var umfram kvóta. Búvörulög gerðu ráð fyrir að aðeins mætti setja mjólk á markað sem var framleidd innan greiðslumarks (kvóta), en hins vegar voru óskýr ákvæði um hvað ætti að gera ef einhver færi þessa leið.


Í frumvarpinu, sem Jón lagði fram í gærkvöldi, er að finna ákvæði um að leggja skuli fjársekt á framleiðanda sem ekki hefur greiðslumark en selur mjólk samt sem áður á innanlandsmarkaði. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að þeim sem vinna afurðir úr mjólk heima á býlinu megi nota allt að 10 þúsund lítra af kvótanum í þessa vinnslu.


Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, segir að þetta mál sé búið að vera lengi í vinnslu. Stjórnvöld hafi heitið því við endurskoðun síðasta búvörusamnings, þegar framlög ríkisins til samningsins voru skert, að niðurstaða yrði fengin í þetta mál. Hann sagði að í grunninn snerist þetta mál um það hvort allir mjólkurframleiðendur tækju sameiginlegan þátt í að markaðssetja mjólk hér á landi eða hvort sumir sem væru næst markaðinum mættu afsetja afurðir eftir öðrum leikreglum.


Stjórnendur Mjólku lýstu á sýnum tíma yfir harðri andstöðu við að gera breytingar á búvörulögum í þessa veru. Sigurður sagði að á fyrstu árum Mjólku hefði fyrirtækið keypt mjólk sem framleidd var utan greiðslumarks, en síðustu tvö ár hefði Mjólka hins vegar keypt mjólk af Mjólkursamsölunni til vinnslu. Frumvarpið ætti því ekki að hafa neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækisins.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka