Borgaryfirvöld segja að verulegur árangur hafi náðst í sparnaði í innkaupum á vegum aðalsjóðs Reykjavíkurborgar milli áranna 2008 og 2009. Á árinu 2008 hafi verið keyptar vörur og þjónusta fyrir 6.555.000 og hafi sú tala lækkað í 5.648.000 á árinu 2009. Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Jafnframt hefur orðið veruleg aukning á viðskiptum sem eiga sér stað í gegnum skilgreinda innkaupaferla. Þetta kemur fram í minnisblaði innkaupastjóra Reykjavíkurborgar sem lagt var fram í borgarráði í gær.
Árið 2008 voru birgjar aðalsjóðs rúmlega 7 þúsund talsins og mikið um smærri viðskipti. Innkaup aðalsjóðs árið 2008 sem eru í skilgreindum innkaupaferlum nema um 2,8 milljörðum króna. Árið 2009 voru sambærileg innkaup aðalsjóðs í skilgreindum innkaupaferlum um 3,3 milljarðar króna og birgjar um 5.500 talsins,“ segir í tilkynningu.
Haft er eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra að það sé ánægjulegt að sjá þann árangur sem hafi náðst í innkaupamálum.
„Það er ánægjulegt að sjá lækkun kostnaðar á milli ára auk þess sem vel hefur gengið að formgera betur alla innkaupaferla. Markmiðið er að gera innkaup borgarinnar gagnsærri, auka aðgengi birgja að borginni og lækka kostnað vegna innkaupa. Þetta eru góð skref í þá átt og halda verður áfram á sömu braut,“ segir Hanna Birna í tilkynningunni.