Aðeins eru 45 cm frá botni Svaðbælisár og upp í brúargólfið. Dofri Eysteinsson framkvæmdastjóri Suðurverks, segir að setja þurfi 100 milljónir í að hreinsa úr farvegi árinnar og laga varnargarða.
„Þetta lítur ekki vel út. Það verður að segjast,“ sagði Dofri sem hefur í dag unnið á ýtu við Svaðbælisá ásamt fleiri starfsmönnum Suðurverks við að ýta upp varnargörðum. Vegagerðin hefur sett um 20 milljónir í þetta verkefni, en Dofri segir að ef vel ætti að vera þyrfti að ýta upp úr farvegi árinnar bæði ofan og neðan við þjóðveginn.
Í flóðum sem komið hafa í ána eftir að eldgosið í Eyjafjallajökli hófst hefur komið gríðarlegt magn af aur og drullu. Farvegur árinnar hefur því hækkað. Það leiðir til þess að þegar hækkar í ánni leitar vatnið út fyrir farveginn. Í síðasta flóði sást vel að tappi er að myndast við brúna, en aðeins 45 cm er frá botni farvegarins upp í brúargólfið.
Dofri segir ekki hættu á að brúin fari í flóðum. Allt vatnið komist hins vegar ekki undir hana og því leitið það upp með veginum og hætt sé við að það flæði yfir veginn ef það geri mikil flóð.
Í skýrslu Veðurstofunnar segir að „verulega líkur“ séu á frekari eðjuflóðum niður suðurhlíðar Eyjafjallajökuls. Þessi hætta getið verið viðvarandi í talsvert langan tíma.
Páll Eggert Ólafsson, bóndi á Þorvaldseyri, segir fólk undir Eyjafjöllum áhyggjufullt út af ástandinu. Það sé ekki gott að búa við þessa ógn. Hann segir að stjórnvöld verði að setja meiri fjármuni í að hreinsa úr farvegi árinnar.