Bann við láni með veði í eigin bréfum

Guðmundur Steingrímsson, Ásmundur Einar Daðason og Birkir Jón Jónsson á …
Guðmundur Steingrímsson, Ásmundur Einar Daðason og Birkir Jón Jónsson á Alþingi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ný lög um fjármálafyrirtæki fela meðal annars fela í sér bann við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum. Ennfremur eru settar þröngar skorður við lánveitingum til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna.

Málið hefur fengið ítarlega umfjöllun á Alþingi. Sjálfstæðismenn töldu í umræðum um málið nauðsynlegt að skoða fleiri þætti í starfsemi fjármálafyrirtækja en gert var. Frumvarpið gengi því ekki nógu langt og ekki hafi verið ákveðið hvernig eigi að taka á nauðsynlegum þáttum í umhverfi fjármálafyrirtækja. Framsóknarmenn bentu á að stjórnvöld hafi ekki enn mótað sér stefnu um það hvers konar starfsemi eigi að vera á íslenskum fjármálamarkaði og hvert umfang starfseminnar eigi að vera miðað við stærð og getu þjóðarbúsins ef til áfalla kemur.

Viðskiptanefnd Alþingis lagði fram tillögu um að nefnd yrði skipuð sem hafi það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væntanlegum tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna. Nefndin á m.a. að skoða stöðu og starfsumhverfi sparisjóða, eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingarfélögum og öfugt, reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtæki og hvernig verði best hægt að tryggja dreift eignarhald, og hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Þessi tillaga var samþykkt.

Frumvarpið felur í sér að Fármálaeftirlitið fær auknar eftirlitsheimildir. Fjölgað er þeim ákvæðum þar sem Fjármálaeftirlitið fær heimildir til að leggja mat á rekstur eða hegðun eftirlitsskylds aðila.


Aukin er ábyrgð og hlutverk innri eftirlitsdeilda og áhættustýringar. Þrengd eru tímamörk starfstíma sem endurskoðunarfyrirtæki hafa vegna starfa sinna fyrir einstök fjármálafyrirtæki.

Halda skal sérstaka skrá um stærri lántakendur. Aðilum sem ekki lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins en eru á skuldbindingaskrá verður skylt að veita eftirlitinu upplýsingar um allar skuldbindingar sínar.


Skerpt er á ákvæðum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Lagt er til að lögfest verði tilvist úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Lögð eru til ný ákvæði um meðferð upplýsinga um viðskiptamenn. Þrengd eru tímamörk sem fjármálafyrirtæki hafa til þess að afsetja fullnustueignir.


Þrengd eru og skilgreind nánar skilyrði fjármálafyrirtækja til þess að mega eiga eigin hluti. Eignarhlutur dótturfélaga telst nú með svo og samningar utan efnahags um eigin hlutabréf.


Bann er lagt við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum. Settar eru þröngar skorður við lánveitingum til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna og Fjármálaeftirlitinu falið víðtækara hlutverk við eftirlit með slíkum viðskiptum.


Fjármálaeftirlitið setur reglur um hvernig lán sem tryggð eru með veði í eignarhlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum koma til útreiknings á áhættu- og eiginfjárgrunni.


Skýrðar og þrengdar eru reglur um stórar áhættuskuldbindingar. Auknar eru heimildir Fjármálaeftirlitsins til þess að snúa við sönnunarbyrði við mat á þeim sem hyggjast eignast eða auka við virkan eignarhlut.


Auknar eru kröfur til stjórnarmanna, ábyrgð þeirra á eftirliti með rekstri aukin og bann sett við starfandi stjórnarformönnum. Fjármálaeftirlitinu er ætlað aukið hlutverk við eftirlit með starfi stjórna.


Settar eru reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við starfsmenn. Settar eru reglur um hvernig standa má að hvatakerfum, kaupaukakerfum, og um starfslokasamninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert