„Við verðum að mennta okkur út úr kreppunni,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands við útskrift tæplega 1.800 kandídata í dag. Kristín sagði að stefnumörkun annarra þjóða sýndi að litið sé á háskólamenntun sem langtímalausn á efnahagsvandanum.“ Við verðum með sama hætti og aðrar þjóðir að forgangsraða og setja menntun, vísindi og nýsköpun í algeran forgang.“
Hún greindi frá stofnun Mannerfðafræðistofnunar Íslands, sem Háskóli Íslands setti á laggirnar í gær í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu og Landspítalann háskólasjúkrahús. Stofnuninni er ætlað að verða leiðandi á heimsvísu á sviði mannerfðafræða. Þá fjallaði hún um aukið samstarf við erlendar og alþjóðlegar vísindastofnanir. Kvað hún Háskóla Íslands njóta mikillar velvildar á alþjóðavettvangi.
Umsóknum um skólavist við háskólann fjölgar ár frá ári, um 20% í fyrra og aftur um 18% núna. Háskólarektor sagði að í þessu fælist mikið traust til skólans. Rektor sagði að það væri gaman að sjá að nær allir dúxar og semidúxar framhaldsskólanna væru meðal umsækjenda við háskólann nú.