Alþingi hefur samþykkt samhljóða breytingartillögur allsherjarnefndar um stjórnlagaþing. Málið fer núna til þriðju umræðu en allar líkur eru frumvarpið verði að lögum fyrir þinglok.
Ágreiningur hefur verið um þetta mál í þinginu. Sjálfstæðismenn hafa verið andsnúnir frumvarpinu og telja að Alþingi sjálft eigi að vinna að breytingum á stjórnarskrá.
Breytingartillagan felur í sér að komið verður á fót sjö manna stjórnskipaðri nefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa breytingar á stjórnarskránni. Nefndin á að undirbúa tillögur og safna gögnum um stjórnarskrármálefni sem lögð verða fyrir stjórnlagaþing en hlutverk þess verður að ræða breytingar á stjórnarskrá. Þingið kemur til með að starfa í tvo mánuði. Tillögur stjórnlagaþingsins fara síðan til Alþingis sem tekur endanlega ákvörðun.
Frumvarpið í þeirri mynd sem það er í núna felur í sér málamiðlun. Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingar, sagði við atkvæðagreiðsluna að það væri ekki rétt sem haldið hefði verið fram að frumvarpið væri útþynnt. Eygló Harðardóttir og Birkir Jón Jónsson alþingismenn Framsóknarflokks, fögnuðu frumvarpinu og sögðu: „Til hamingju Ísland.“