Eldur kviknaði í gamla torfbænum í Laufási í Eyjafirði á tíunda tímanum í kvöld. Fólk á næsta bæ varð fyrst vart við eldinn og tilkynnti hann umsvifalaust.
„Við komum hér að gamla bænum í Laufási þar sem stóð reykur upp úr hlóðaeldhúsi. Menn brugðust nú mjög skjótt og rétt við svo það var komið í veg fyrir miklar skemmdir," segir Sr. Bolli Pétur Bollason prestur í Laufási.
„Það þurfti að rífa þakið en við slökktum eldinn að innan. Slökkvilið Grenivíkur og slökkvilið Akureyrar unnu saman að þessu. Það eru ekki miklar skemmdir, þetta má laga og sem betur fer tókst eldinum ekki að breiðast um bæinn," segir Bolli en prestssonurinn var fyrstur á vettvang til að hefja slökkvistörf.
Eldsupptök eru ekki ljós en grunur leikur á því að ofhitnun vegna sólar hafi kveikt eldinn í tjörguðum glugga. „Glugginn er smíðaður með blikki og það hefur hlýnað snögglega hér fyrir norðan og sólin skinið, það kann að vera vegna þess," segir Bolli sem kveður vangá ekki hafa valdið eldsvoðanum.
Gamli torfbærinn var reistur 1865. „Þetta er náttúrulega mikil gersemi og þjóðararfur, það er óhætt að segja það. Það er mikilvægt að vera vakandi yfir þessu," segir Bolli og bætir við að ekkert tjón hafi orðið á fólki.