Gunnlaugur Júlíusson langhlaupari hefur sett nýtt met þegar hann lauk við Comrades-hlaupið í S-Afríku. Gunnlaugur er eini maðurinn í heiminum sem hlaupið hefur fjögur svokölluð últrahlaup. Þetta eru London-Brighton, Comrades, Western States og Spartathlon.
„Það er svolítið sérstakt að hafa náð að upplifa það sem enginn annar í heiminum hefur gert,“ segir Gunnlaugur á vef sínum. Hann segist hafa vitað að einungis sextán menn í heiminum hefðu lokið bæði Western States og Spartathlon, þarf af fjórir Norðurlandabúar. Hann segist hins vegar ekki hafa verið búinn að kanna hvort einhver þessara 15 hefðu lokið hinum hlaupunum. „Nú er hann búinn að rannsaka málið og þetta er niðurstaðan.“
Árið 2005 hljóp Gunnlaugur Western States-hlaupið en það er um 100 mílna langt. Það tók hann rúmlega 26 klukkutíma að hlaupa það. Árið 2008 hljóp hann hið 246 km langa Spartathlon frá Aþenu til Spörtu. Það tók hann um 34 klukkutíma. Í fyrra hljóp Gunnlaugur Borgundarhólms-hlaupið á um 48 tímum en hlaupið er 333 kílómetrar.
Síðastliðið haust tók Gunnlaugur svo þátt í hlaupi á milli London og Brighton, en efnt hefur verið til hlaups milli borganna frá árinu 1837.
Fyrir helgi bætti Gunnlaugur svo enn einu hlaupinu við afrekalista sinn þegar hann hljóp á milli Pietermaritzburg og Durban á suðausturströnd Suður-Afríku, en hlaupið er 89 km langt.
Suður-Afríkuhlaupið er kennt við Vic Clapman sem fæddist í London árið 1886 en fluttist til Suður Afríku ungur að árum með foreldrum sínum. Þegar Búastríðið braust út (1899-1902) þá þjónaði hann við sjúkraflutninga einungis 13 ára gamall. Hann fluttist síðar til Natal og vann þar fyrir sér sem vélamaður við SA járnbrautirnar. Þegar fyrri heimsstyrjöldin (1914-1918) braust út þá gekk Clapman í áttundu herdeild SA hersins. Hann barðist á austursvæðum Afríku og gekk 1700 mílur með hernum á þessum tíma. Sársaukinn, dauðinn og hörmungar þær sem hann upplifði með herdeildinni á þessum tíma skildi eftir sig sérstaka félagslega samkennd meðal hermannanna. Margir lifðu stríðið af en aðrir féllu. Clapmann fannst að nauðsynlegt væri að minnast þeirra félaga sinna sem féllu í stríðinu á einhvern þann hátt sem sæmdi þeim raunum sem þeir höfðu gengið í gegnum. Minnugur hitans, þorstans og þreytunnar sem þeir upplifuðu þá fékk hann þá hugmynd að langhlaup við erfiðar aðstæður væri hæfileg leið til að minnast fallinna félaga.