18 fálkar voru skotnir

Allmargir fálkar hafa verið skotnir hér á landi á síðustu …
Allmargir fálkar hafa verið skotnir hér á landi á síðustu árum. mbl.is

18 af þeim 68 fálkum sem krufðir voru á Náttúrufræðistofnun á liðnum vetri höfðu verið skotnir. Þessir fuglar höfðu fundist dauðir eða deyjandi á síðustu fimm árum og verið skilað til stofnunarinnar. Einn fálkanna var með 26 högl í líkamanum og hafði greinilega drepist strax en hinir voru með 1 til 4 högl og líklega höfðu flestir komist lifandi frá skotmanninum en áverkarnir átt þátt í dauða margra þeirra síðar.

Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands á hræjum friðaðra fugla sem fundist hafa á undaförnum árum sýna að fleiri en fimmti hver örn og fjórði hver fálki sem fundist hafa dauðir hafa verið skotnir. „Þetta virðingarleysi fyrir landslögum kemur á óvart, en báðar þessar tegundir eru á válista og stranglega friðaðar, örninn frá 1914 og fálkinn frá 1940. Löggjöf um varðveislu og uppstoppun friðaðra fugla og verslun með þá er gölluð og því er erfitt að koma böndum á þessa ólöglegu iðju. Rótgróin óvild fámenns hóps í garð arnarins á hér einnig hlut að máli og fégræðgi þeirra sem höndla með friðaða fugla,“ segir á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar.

Fimm (22%) af 23 örnum sem fundust dauðir eftir að hafa öðlast sjálfstæði og yfirgefið foreldra á heimasvæðum sínum reyndust hafa verið skotnir og drápust tveir þeirra örugglega af sárum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert