„Alþingi Íslendinga er í ruglinu,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, alþingismaður Samfylkingar á Alþingi í kvöld. Hún sagði þingið þyrfti að breyta vinnubrögðum sínum og við þá vinnu ætti það að leita fyrirmynda í starfsháttum þjóðþinga í nágrannalöndum okkar.
„Alþingismenn og þingflokkar þurfa að endurskoða starfshætti sína. Við gætum sagt að við þyrftum að fara í meðferð. Á þjóðþingum nágrannalandanna eru oft átök og stóryrði enda deilur hluti af lýðræðinu, en ég held að í flestum nágrannaríkjum okkar þætti stappa nærri sturlun sá pólitíski hráskinnaleikur sem hér er leikinn í alvarlegum málum.
Alþingi getur lært mikið af þjóðþingum nágrannalandanna eins og það hefur raunar gert í sumum efnum upp á síðkastið. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefnd sem vinnur úr henni eru af erlendri fyrirmynd og sannarlega til fyrirmyndar.
Hér þarf þó að ganga mun lengra og stokka starfsemi Alþingi upp. Þjóðþing Norðurlandanna þykja almennt vel skipulögð og valdamikil í samskiptum við framkvæmdavaldið. Af þeim eigum við að læra,“ sagði Sigríður Ingibjörg.