Eigandi söluturnsins Draumsins við Rauðarárstíg situr í gæsluvarðhaldi eftir fimm húsleitir á fimmtudag, en hann varð úrskurðaður í fimm daga gæsluvarðhald sl. föstudag. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.
Fram hefur komið á mbl.is að lögreglan gerði húsleit sl. fimmtudag í söluturninum og á tveimur öðrum stöðum sem tengjast rekstraraðilum. Lögreglan lagði hald á fíkniefni í húsnæði sem tengjast þeim sem reka verslunina.
Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn sagði að yfirheyrslur hefðu staðið fram eftir kvöldi. Ýmislegt hefði komið í ljós í rannsókninni sem átti eftir að skoða betur í samvinnu við tollayfirvöld og heilbrigðiseftirlit. Hann sagði að engin fíkniefni hefðu fundist í söluturninum sjálfum, en fíkniefni hefðu fundist í húsnæði sem tengjast þeim sem reka verslunina.