ESB-umsóknin verði dregin til baka

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins. YVES HERMAN

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er ótímabær, kostnaðarsöm og fyrirsjáanlegt að aðildarsamningurinn verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þar að kemur. Því hníga öll rök að því að umsóknina beri að draga til baka, að því er fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögu Unnar Brár Konráðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Tillöguna leggur hún fram ásamt Ásmuni Einari Daðasyni, einum eindregnasta andstæðingi ESB-aðildar í hópi stjórnarþingmanna, Gunnari Braga Sveinssyni, formanni þingflokks Framsóknarflokksins og Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Hreyfingarinnar.

Fram kemur í greinargerðinni að þingmönnunum þyki undirbúningi hafa verið mjög ábótavant og andstaða þjóðarinnar við aðild sé mikil. Pólitísk samstaða sé ekki að baki umsókninni. Það sé óvenjulegt, þegar ríki sækir um aðild.

„Þegar tilkynnt er af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að mælt sé með því að hafnar verði viðræður, þá brjótast yfirleitt út fagnaðarlæti á götum úti. Fjölmargir sérfræðingar, bæði erlendir og innlendir, hafa bent á þessa staðreynd auk þess sem þetta hefur ekki farið fram hjá ráðamönnum Evrópusambandsins," segir í greinargerðinni. Þessu hafi hins vegar ekki verið að skipta á Íslandi.

Best hefði verið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort leita skuli aðildar. Með slíkt samþykki á bak við umsóknina væri umboðið skýrt, en að öðrum kosti mætti spara a.m.k. sjö milljarða króna við umsóknarferlið.

Sérstakur kafli fjallar um að forsendurnar fyrir aðildarumsókninni séu nú breyttar frá því sem áður var. „Efnahagserfiðleikar almennt í álfunni og spenna á myntsvæðinu, sem sextán ESB-ríki deila með sér, veldur því að kröfur hafa komið fram um frekari samruna, t.d. við gerð fjárlaga ríkja. Á næstu missirum og árum mun Evrópusambandið endurskoða starfshætti sína og e.t.v. gera breytingar á grunnsáttmála sínum, Lissabonsáttmálanum. Á meðan ekki er ljóst hvernig haldið verður á málum hjá Evrópusambandinu er óráðlegt að vera í aðildarferli að sambandi sem gæti tekið grundvallarbreytingum á næstu missirum," segir þar.

Hvorki aðild að ESB né myntbandalaginu hafi tryggt stöðugleika í Grikklandi, á Ítalíu, Spáni, Portúgal og Írlandi. Þar að auki séu viðbrögð sambandsins við kreppunni þau að auka miðstýringuna frá Brussel.

„Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur komið þeirri skoðun á framfæri að eina leiðin til þess að ná einhverjum tökum á smáríkjum sem stýra efnahagsmálum sínum á annan hátt en Þjóðverjar vilja sé að herða reglurnar og breyta sáttmálum Evrópusambandsins þannig að stóru þjóðirnar fái sterkari heimildir til þess að grípa inn í efnahagslíf einstakra aðildarríkja," segir í greinargerðinni.

Þá sé gerð um það krafa nú orðið að umsóknarríki lagi sig að sambandinu í aðildarferlinu, en ekki eftir það, eftir að aðild hefur verið samþykkt. Þetta sé kallað aðlögunarferli, en ekki samningaviðræður. Það verklag sé andstætt lýðræðislegum stjórnarháttum.

Þingsályktunartillagan í heild sinni

Margrét Tryggvadóttir, Borgarahreyfingunni (til vinstri) og Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðsflokki, …
Margrét Tryggvadóttir, Borgarahreyfingunni (til vinstri) og Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðsflokki, til hægri. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert