„Við getum ekki beðið endalaust. Afleiðingarnar eru uppsagnir sem þegar eru hafnar og halda áfram um næstu mánaðamót,“ segir Árni Jóhannsson, forstöðumaður mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins.
Hann segir bagalegt að framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun og Suðurlandsveg tefjist. SI hafi fyrir löngu varað við erfiðri stöðu, en næsta lítið hafi gerst og þar með hafi möguleikar íslenskra fyrirtækja minnkað til að taka þátt í uppbyggingunni.
Framkvæmdir við fyrsta áfanga breikkunar Suðurlandsvegar frestast fram á sumar. Háfell ehf., sem var með þriðja lægsta tilboð í verkið, hefur kært niðurstöðuna. Telur Háfell að Vegagerðinni sé óheimilt að taka tilboði frá Vélaleigu AÞ.