Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, sagði í eldhúsdagsumræðum fyrir skömmu að engin skjaldborg hafi verið slegið um heimilin heldur hafi ríkisstjórnin stofnað til umsáturs um þau fyrir hönd kröfuhafa. Slæm áhrif þessa segir hann ljós en stjórnvöld virðist ekki treysta sér til að snúa af þeirri braut sem þau eru á. Hann sagði að nú stefndi í að þingi yrði slitið án raunhæfra lausna á skuldavanda heimilanna.
Nú sagði Sigmundur Davíð að grípa þyrfti til óhefðbundinna aðgerða og koma þyrfti til móts við fólkið. Þess í stað væri gert ráð fyrir að miðstétt Íslands þurrkaðist út og hvatann til að berjast og ná árangri vantaði - aðgerðir stjórnvalda hingað til hefðu þvert á móti haft letjandi áhrif.
Kallaði Sigmundur það sanngirnismál og einu réttu lausnina að lækka höfuðstól allra lána. Fagnaði hann aðgerðum félagsmálaráðherra varðandi bílalán en sagði að helst tækifærin til umbóta biðu í fasteignalánum. Stjórnvöld þyrftu þó að grípa til aðgerða að eigin frumkvæði, lánastofnanir myndu ekki gefa eftir af sjálfsdáðum.