Ekki verður hægt að taka upp evru á Íslandi fyrr en einhvern tímann eftir árið 2014, að mati Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra. Gylfi svaraði í dag fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um það hvenær íslenska hagkerfið myndi uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrir upptöku evrunnar.
Taldi hann ekki ástæðu til að búast við öðru en að vaxtastig á Íslandi myndi aðlagast vaxtastigi evrusvæðisins í aðdragandanum að inngöngu Ísland í myntbandalagið, eins og reynslan hefði sýnt að gerst hefði í öðrum löndum. Þá ætti hallinn á rekstri hins opinbera að vera kominn niður í um 3% af landsframleiðslu á árinu 2012.
Sagði Gylfi að Ísland myndi fljótlega uppfylla flest skilyrðin en nokkuð lengra væri í að skilyrðið um vergar skuldir hins opinbera væri uppfyllt. Samkvæmt skilyrðunum mega skuldir hins opinbera ekki vera meiri en 60% af landsframleiðslu. Taldi Gylfi að á árinu 2014 gætu skuldirnar verið komnar niður í um 85% af landsframleiðslunni, en að mestar verði þær á þessu ári, þ.e. um 120%.
Tók hann fram að ef eingöngu væri horft til hreinna skulda yrði staða Íslands líklega betri en að jafnaði í löndum ESB og raunar einnig en í ýmsum öðrum löndum, t.d. Bandaríkjunum og Japan. Hann sagði ekki horft til þess hverjar skuldir ríkja utan efnahagsreiknings séu, en þær séu afar litlar á Íslandi. Raunar mætti halda því fram að íslenska ríkið ætti eignir utan efnahagsreiknings.
Þingmennirnir Vigdís Hauksdóttir, Framsóknarflokki og Ásmundur Einar Daðason, Vinstrihreyfingunni grænu framboði, töldu ráðherrann bjartsýnan fram úr hófi. Sagði Ásmundur Einar að gert væri ráð fyrir því að það tæki Ísland um 30 ár að uppfylla Maastricht-skilyrðin þegar kemur að skuldum hins opinbera.
„Ávallt hefur verið haldið uppi einhverjum rómuðum málflutningi um að okkur muni bjóðast óteljandi undanþágur, en ég kalla eftir því að menn fari að sjá ljósið," sagði Ásmundur Einar.
Unnur Brá óskaði eftir skýru svari frá ráðherranum um hvort hann teldi að Ísland gæti tekið upp evru árið 2014. Gylfi kom þá aftur í pontu og sagðist ekki vilja ganga svo langt að fullyrða að það tækist, hins vegar væri að hans mat að þá yrði búið að uppfylla öll skilyrðin nema það sem snýr að vergum skuldum hins opinbera.
„Raunar tel ég ekki raunhæft að gera ráð fyrir að við tökum upp evru árið 2014. Það muni taka lengri tíma," sagði Gylfi.
Hann benti einnig á að þegar horft er til opinberra skulda hafi ESB horft þar á einungis einn mælikvarða af nokkrum sem til greina koma. Sambandið hafi horft sérstaklega á vergar skuldir hins opinbera. En sterk rök séu fyrir því að menn eigi að horfa á hreinar skuldir frekar, þar sem staða Íslands sé mun betri.