„Verkefnið er að takast“

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Verkefnið er á góðri leið með að takast,“sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í ræðu á Alþingi í kvöld þegar hann lýsti þeim erfiðleikum í efnahagsmálum sem ríkisstjórnin hefði þurft að takast á við. Hann sagði að staða efnahagsmála væri betri en spáð hefði verið.

Steingrímur sagði að þegar ríkisstjórnin tók við hefðu ýmsir talað um hættu á þjóðargjaldþroti og greiðslufalli. Slíkt tal heyrðist ekki lengur enda ekki ástæða til.

Steingrímur sagði að því hefði verið spáð að landsframleiðsla á síðasta ári yrði um 1.400 milljarðar en nú væri ljóst að hún hefði verið um 1.500 milljarðar. Því hefði verið spáð að hagvöxtur myndi dragast saman um 10%, en í reynd hefði samdrátturinn orðið 6,5%. Fjárlög í fyrra gerðu ráð fyrir halla upp á 12,6% en nú stefndi í að hallinn yrði 9%. Spáð hefði verið 10% atvinnuleysi í fyrra en það hefði orðið 8-9%. Atvinnuleysi í apríl og maí á þessu ári væri minna en það hefði verið í sömu mánuðum í fyrra.

Steingrímur benti á að á síðustu tveimur ársfjórðungum (síðasta ársfjórðungi síðasta árs og fyrsta ársfjórðungi þessa árs) hefði landsframleiðsla aukist. Afgangur á vöruskiptum í síðasta mánuði hefði verið 17 milljarðar. „Það munar um minna,“ sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði að ef ekki hefði komið til eldgos og hestapest þá hefði  líklega orðið hagvöxtur á þessu ári.

Steingrímur sagði að minnka þyrfti halla á ríkissjóði um 43 milljarða á næsta ári. 11 milljarðar yrði aflað með sértækri tekjuöflun og skorið yrði niður um 32 milljarða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert