Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði í fyrstu umferð Eldhúsdagsumræðna, almennra stjórnmálaumræða, sem standa nú yfir á Alþingi að ekki liggi á að setja lög um stjórnlagaþing. Stjórnarskráin hafi ekki brugðist í hruninu og það sé ekki hún sem sligi heimilin í landinu. Leggja þurfi áherslu á mál sem varða hagsmuni skuldara og taki á vanda heimilanna.
Sagði Bjarni að ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna hefði hvorki burði né getu til að takast á við og leysa verkefnin sem lægju fyrir. Innanmeinin og ágreiningurinn sem hann sagði blasa við öllum gerðu þetta að verkum. Fórnarlömb þessa væru heimilin og fólkið í landinu.
Traust til Alþingis kvað Bjarni vera lítið meðal þjóðarinnar. Hyggur hann að allir þingmenn hafi spurt sig hvernig megi endurheimta það, allir hafi þeir tekið skilaboðin til sín og vilji bæta úr. Í kjölfar hrunsins segir hann að ekki hafi verið við öðru að búast en nú sé komin ný ríkisstjórn og samt sé vantraustið viðvarandi. Sagði hann svikin loforð og verkleysi stjórnarinnar vera ástæður þessa.
Þá hafi stjórnin þverskallast við að hlíta vilja þjóðarinnar í ýmsum málum. Benti Bjarni á Icesave málið þar sem hann sagði þjóðina hafa haft ríkisstjórnina undir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í ofanálag vilji stjórnin ekki horfast í augu við vilja þjóðarinnar varðandi inngöngu í Evrópusambandið.
Sagði Bjarni að nú þyrfti að gera upp fortíðina og byggja upp að nýju.