Katrín Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti fyrir ríkisstjórn í morgun áætlun um aukið samstarf og verkaskiptingu opinberu háskólanna með hugsanlega sameiningu að markmiði. Áætlunin er viðbrögð við þeim niðurskurði til háskólanna sem þegar hafi orðið og sé fyrirsjáanlegur á næstu árum.
Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að áætlunin geri ráð fyrir því að innan fárra ára verði starfandi öflugt net opinberra háskóla sem bjóði upp á fjölbreytt háskólanám á öllum sviðum sem og betri nýtingu fjármuna.
Fyrsta skrefið í þá átt sé að samræma og samhæfa ýmiss konar stoðþjónustu og stjórnkerfi háskólanna, s.s. tölvukerfi, nemendaskrár, kennsluskrár, launakerfi og fleira. Einnig sé reiknað með að fjarkennsla verði notuð í auknum mæli.
Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins er stofnun nets opinberu háskólanna nauðsynlegt til að standa vörð um fjölbreytt námsframboð og öflugar rannsóknir á sviðum sem eru veigamikil fyrir íslenskt samfélag. Slíkt netsamstarf er jafnframt nauðsynlegur undanfari sameiningar á háskólastiginu, standi vilji til þess á síðari stigum. Þessar hugmyndir hafa verið til umræðu í nánu samstarfi við rektora allra háskóla í landinu á undanförnum vikum.
„Framangreind áætlun eru viðbrögð við þeim niðurskurði til háskólanna sem þegar hefur orðið og er fyrirsjáanlegur á næstu árum. Sú hagræðing sem háskólanet opinberu háskólanna myndi hafa í för með sér þarf því að gerast hratt. Við núverandi aðstæður leggur mennta – og menningarmálaráðuneytið mikla áherslu á að standa vörð um gæði og getu skólakerfisins. Það kallar á forgangsröðun, tilfærslu verkefna og að kraftar þeirra sem sinnt hafa þessum málaflokki verði í auknum mæli sameinaðir. Það kallar líka á góða samvinnu milli allra aðila sem koma að menntunarmálum háskólastigsins í landinu.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur undanfarin misseri unnið að þróun leiða til að hagræða í starfsemi háskólanna með það að leiðarljósi að viðhalda fjölbreyttri háskólastarfsemi um land allt af háum gæðum. Fjöldi vinnuhópa hefur fjallað um háskólakerfið í heild sinni eða einstaka þætti þess. Margir möguleikar hafa verið skoðaðir ofan í kjölinn en skoðanir eru mjög skiptar um hvaða leið sé best að fara. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að fylgja þeirri meginlínu sem lögð var í skýrslunni Education, Research and Innovation Policy: A new direction for Iceland (Christoffer Taxell, Richard Yelland, Iain Gillespie, Markku Linna og Arnold Verbeek (ritari), Reykjavík 2009) og vinna að auknu samstarfi og verkaskiptingu á háskólastigi en þar var lagt til að opinberir háskólar myndu efla innbyrðis samstarf og sama myndi eiga við um einkarekna háskóla. Með þessu móti má betur standa vörð um fjölbreytt námsframboð og öflugar rannsóknir á sviðum sem nauðsynleg eru fyrir íslenskt samfélag.
Samhliða þessu hefur ráðuneytið gripið til aðgerða til að tryggja gæði og auka skilvirkni háskólanna, þ. á m. að að stofna alþjóðlegt gæðaráð fyrir háskólana, sem mun bera ábyrgð á gæðamati og viðurkenningum námsleiða allra háskóla landsins og endurskoðun á reiknilíkani fyrir kennslu. Ennfremur hefur verið rætt um möguleika á auknu samstarfi milli einkareknu háskólanna,“ segir í tilkynningu.