Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fallið frá tilmælum sínum um að loka hátíðarguðsþjónustu í dómkirkjunni hinn 17. júní fyrir almenningi. Þetta var ákveðið í gær á fundi samráðsnefndar Alþingis, lögreglu, forsætisráðuneytis, Reykjavíkurborgar og Dómkirkjunnar sem fer með skipulagningu hátíðahaldanna.
„Þau komu yfir í kirkju og þar fórum við yfir þetta. Það er niðurstaðan, eins og alltaf, að messunni verður ekki lokað. Við leggjum upp úr því að Dómkirkjan sé opin öllum. Þangað eru allir velkomnir því þannig viljum við hafa þjóðkirkjuna,“ segir sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur sem kveðst mjög ánægður með þessa niðurstöðu og fullur tilhlökkunar að taka á móti fólki.