Efnahagur lántakenda hefur versnað mikið

Skuldir í erlendum gjaldmiðlum hafa reynst þungbærar fyrir heimili og …
Skuldir í erlendum gjaldmiðlum hafa reynst þungbærar fyrir heimili og fyrirtæki vegna gengislækkunar íslensku krónunnar og minnkandi tekna í kjölfar kreppunnar. mbl.is/Rax

Efnahagur lántakenda, heimila og fyrirtækja, hefur versnað mikið undanfarin ár. Eftir skuldasöfnun sem varð við útlánaþenslu og eignaverðsbólu á árunum fyrir bankahrunið, á sér nú stað nauðsynleg aðlögun og endurskipulagning skulda, að því er segir í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

Helmingur fyrirtækjalána í vanskilum

„Skuldir í erlendum gjaldmiðlum hafa reynst þungbærar fyrir heimili og fyrirtæki vegna gengislækkunar íslensku krónunnar og minnkandi tekna í kjölfar kreppunnar. Samkvæmt Seðlabanka Íslands eru 23% heimila í greiðsluvanda og um helmingur fyrirtækjalána viðskiptabankanna í vanskilum," segir í þjóðhagsspánni.

Heildarinnlán innlánsstofnana voru u.þ.b. 1.660 milljarðar króna í árslok 2009 í samanburði við 1.704 milljarða króna í árslok 2008 og 3.123 milljarða króna í lok september 2008.

Á hinn bóginn hefur hlutfall innlána innlendra aðila aukist úr 45% í lok september 2008 í 95% í árslok 2009. Frá árslokum 2008 til sama tíma árið 2009 hafa heildarinnlán minnkað um tæplega 3% en innlán innlendra aðila um rúmlega 1%.

Innlán uppistaðan í fjármögnun bankanna

Í fjármögnun bankanna eru innlán nú uppistaðan, enda fjárfesting erlendra aðila hér á landi lítil og aðgengi að erlendum lánamörkuðum takmarkaður. Útlánsvextir banka hafa að mestu leyti lækkað í samræmi við vaxtalækkun Seðlabankans og einnig skammtímavextir á peningamarkaði.

Ávöxtunarkrafa lengri ríkisbréfa (óverðtryggðra) hefur einnig lækkað, og hefur nýlega lækkað niður fyrir 7%. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa (verðtryggðra) hefur lækkað að sama skapi undanfarið og er nú kringum 3,5%. Fjárfestar hafa í miklu mæli keypt ríkistryggð skuldabréf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert