Ný bæjarstjórn Kópavogs tók við völdum í dag. Í upphafi fyrsta fundar nýrrar bæjarstjórnar var kynntur málefnasamningur um meirihlutasamstarf Lista Kópavogsbúa, Næst besta flokksins, Samfylkingar og Vinstri grænna. Þá var kosið í helstu embætti, nefndir og ráð og var Guðrún Pálsdóttir kjörin nýr bæjarstjóri Kópavogs. Hún tekur við af Gunnsteini Sigurðssyni sem verið hefur bæjarstjóri frá 1. júlí 2009. Honum voru, á fundinum, þökkuð störf í þágu sveitarfélagsins.
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingar, var kjörin formaður bæjarráðs Kópavogs og Ólafur Þór Gunnarsson, oddviti VG, var kjörinn forseti bæjarstjórnar. Gert er ráð fyrir því að hann verði forseti bæjarstjórnar fyrsta ár kjörtímabilsins og að Hjálmar Hjálmarsson, oddviti Næst besta flokksins, taki við næstu tvö árin þar á eftir. Síðan taki Ólafur Þór aftur við síðasta árið. Rannveig Ásgeirsdóttir, oddviti Lista Kópavogsbúa, verður formaður skólanefndar bæjarins.
Formleg yfirlýsing um meirihlutasamstarf var undirrituð í bæjarstjórnarsal Kópavogs fyrr í dag og málefnasamningurinn var, sem fyrr sagði, kynntur á bæjarstjórnarfundinum. Yfirskrift samstarfsins er: Réttlæti, virðing og sköpun.
Málefnasamningnum er skipt í níu kafla, sem bera heitið atvinnumál, íþrótta- og tómstundamál, skólamál, skipulagsmál, félagsþjónusta, lýðræði og opin stjórnsýsla, fjármál, umhverfismál og að lokum menning og ferðamál.
Nýr bæjarstjóri, Guðrún Pálsdóttir, er fædd 7. desember 1956. Hún fluttist til Kópavogs átta ára gömul og hefur búið þar nær óslitið síðan. Hún er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og hefur starfað hjá Kópavogsbæ síðan 1. janúar 1986. Fyrstu áratugina var hún fjármála- og hagsýslustjóri Kópavogsbæjar en sumarið 2008 tók hún við starfi sviðsstjóra tómstunda- og menningarsviðs Kópavogsbæjar.
Guðrún hefur áður gegnt tímabundið stöðu bæjarstjóra og bæjarritara Kópavogs.
Í sveitarstjórnarkosningunum 29. maí fékk Framsóknarflokkurinn einn bæjarfulltrúa, Samfylkingin þrjá, Sjálfstæðisflokkurinn fjóra, Listi Kópavogsbúa einn, Næst besti flokkurinn einn og Vinstri græn einn.
Svo hljóðar fréttatilkynning frá Kópavogsbæ.