Ísland greiddi fyrir vopn til Íraks

Íslensk stjórnvöld studdu innrásina í Írak árið 2003.
Íslensk stjórnvöld studdu innrásina í Írak árið 2003. DESMOND BOYLAN

Á vormánuðum 2004 greiddi Ísland fyrir 8–9 flugferðir „með vopn, skotfæri og annan varning“ frá Slóveníu til Íraks vegna þjálfunaráætlunar NATO fyrir alls 500 þúsund evrur eða u.þ.b. 44 milljónir króna.

Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar sem lagt var fram á Alþingi í kvöld.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum settu Ísland á lista þeirra ríkja (Coalition of the Willing) sem studdu innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak, en fyrst var greint frá listanum á fréttamannafundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu 18. mars 2003.

Í svari utanríkisráðherra kemur fram að hinn 20. mars, sama dag og innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak hófst, upplýsti blaðafulltrúi Bandaríkjaforseta að Ísland væri á lista yfir þau ríki sem lýst hefðu yfir stuðningi við innrásina.

„Í aðdraganda ákvörðunarinnar flutti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum tvær ræður, sem haldnar voru á opnum fundum öryggisráðs SÞ vegna Íraks, 19. febrúar og 11. mars 2003, þar sem sjónarmiðum þáverandi ráðamanna á Íslandi vegna Íraks var komið á framfæri. Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hélt einnig ræðu í öryggisráði SÞ 26. mars 2003 þar sem ákvörðun íslenskra stjórnvalda er rökstudd með eftirfarandi hætti: ,,Iceland has given its political support to the coalition of states for the immediate disarmament of Iraq. This is due to our conviction that action was necessary to ensure an implementation of all relevant UN resolutions regarding the disarmament of Iraq“ eða í íslenskri þýðingu: ,,Ísland hefur veitt bandalagi ríkja, sem vilja tafarlausa afvopnun Íraks, stuðning. Ástæðan er sannfæring okkar um að aðgerð var nauðsynleg til að tryggja framkvæmd allra viðeigandi ályktana Sameinuðu þjóðanna um afvopnun Íraks.“ segir í svari utanríkisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert