Þrátt fyrir umræðu um að innstæður hlaðist upp í bönkum virðast nýlegar tölur Seðlabanka Íslands benda til annars, að því er segir í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Innstæður heimilanna hafa nær staðið í stað að krónutölu frá byrjun árs 2009, sem þýðir raunlækkun um á annan tug prósenta.
Efnahagur og rekstur heimilanna hefur orðið fyrir miklu hnjaski. Á árinu 2009 má reikna með að skuldir flestra heimila hafi hækkað meðan atvinnutekjur lækkuðu í krónum talið. Af skattagögnum má ráða að tekjuskattstofn fyrir tekjuárið 2009 muni við álagningu reynast að krónutölu nær því sá sami og var tekjuárið 2008, samkvæmt þjóðhagsspánni.
Atvinnutekjur almennings mun minni í fyrra en árið 2008
Inni í tölunni fyrir 2009 eru atvinnuleysisbætur um 18 milljörðum króna meiri en 2008 og útgreiðslur séreignarlífeyris að upphæð 35–40 milljarðar króna. Það þýðir að atvinnutekjur (fólks í starfi) hafa verið um 9 prósentum lægri í krónum árið 2009 en árið 2008 og að raungildi nærri 20% lægri árið 2009 en árið 2008.
Reglulegar tekjur, þ.e. atvinnutekjur, venjulegar lífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur eru metnar um þremur prósentum lægri í krónum árið 2009 en 2008. Það er síðan ekki fyrr en kemur að sérstakri úttekt séreignarlífeyris sem tekst að hífa tekjuskattstofninn 2009 upp fyrir tekjuskattstofn 2008. Þar sem verðbólga var 12% árið 2009 er ljóst að kaupmáttur ráðstöfunartekna féll mikið á árinu 2009.
Lítið svigrúm heimilanna til einkaneyslu
„ Allt ber þetta að sama brunni, þ.e. að svigrúm heimilanna til einkaneyslu er lítið, en neyslan hefur verið jöfnuð út að nokkru leyti með því að ganga á sparnað.
Mælingar Hagstofunnar sýna 14,6% samdrátt einkaneyslu árið 2009. Mestur hefur samdrátturinn verið í innfluttri vöru, einkum í kaupum á nýjum bílum, enda hefur veikt gengi krónunnar kreppt að einkaneyslu á móti rýrnun tekna.
Eins og greint var frá að ofan bættu heimilin upp hluta af minni kaupmætti ráðstöfunartekna með því að ganga á sparnað. Hefði samdráttur annars orðið talsvert meiri því reikna má með að megnið af útgreiddum séreignarsparnaði hafi veitt svigrúm til að takmarka samdrátt í einkaneyslu. Án útgreiðslu séreignarsparnaðar hefði samdráttur einkaneyslu getað verið 3 til 4 prósentum meiri árið 2009 en reyndin varð," segir í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var í dag.
Einkaneysla á fyrsta ársfjórðungi 2010 mældist nær óbreytt í magni borið saman við sama ársfjórðung 2009. Fyrri mælingar og aðrar vísbendingar hníga nú í sömu átt. Það kann því að vera að samdráttur einkaneyslu hafi stöðvast. Fyrri mælingar og aðrar vísbendingar hníga nú í sömu átt. Það kann því að vera að samdráttur einkaneyslu hafi stöðvast.
Útlit fyrir að tekjuskattstofn verði lægri en í fyrra
Gera má ráð fyrir að úttekt séreignarsparnaðar haldi eitthvað áfram en þó varla í sama mæli og árið 2009. Þó of snemmt sé að fullyrða um tekjur ársins 2010 (að meðtöldum atvinnuleysisbótum og viðbótarlífeyrisúttekt) er margt sem bendir til að tekjuskattstofn 2010 verði jafnvel lægri í krónum talið en var árið 2009. Kaupmáttur ráðstöfunartekna minnkar því áfram árið 2010.
„Greiðslujöfnun verðtryggðra lána og önnur úrræði stjórnvalda draga úr falli einkaneyslu. Lítilsháttar styrking krónunnar undanfarið vinnur einnig móti samdrætti einkaneyslu. Óvíst er hve lengi þessi atriði duga til að sporna gegn frekari minnkun einkaneyslu enda vinna skattahækkanir sem orðið hafa og áætlaðar eru á móti.
Mikilvægt að stöðva tekju- og eignatap heimilanna
Mikilvægt er því að heimilin nái að stöðva tekju- og eignatap sitt ella verður frekari samdráttur ekki umflúin. Mörg heimili eru í mjög þröngri stöðu, eins og fram hefur komið í þjóðhagsspám fjármálaráðuneytisins," segir í þjóðhagsspánni. Seðlabankinn og Hagstofan hafa einnig kannað þessi mál.
„Við mörgum heimilum blasir óhjákvæmileg aðlögun efnahagsreiknings að breyttum aðstæðum, með eða án aðkomu ríkisins. Niðurstaðan getur valdið miklu um þróun eftirspurnar í þjóðfélaginu á komandi árum. Í spánni er gert ráð fyrir að þrátt fyrir kaupmáttur ráðstöfunartekna dragist enn saman á yfirstandandi ári þá hafi heimilin náð að koma jafnvægi á einkaneyslu sína og að geta þeirra til neyslu verði ekki fyrir frekari skakkaföllum á næstu árum," segir ennfremur í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.