Læknafélag Íslands sendi í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir fullum stuðningi við greinargerð Landlæknis vegna svokallaðrar detox-læknismeðferðar á vegum Jónínu Benediktsdóttur íþróttafræðings.
Læknar benda í þessu samhengi á að á að samkvæmt lögum sé öll heilbrigðisstarfssemi hér á landi háð starfsleyfi frá landlækni og lýtur eftirlitskyldu hans, án tillits til þess hvort hún er veitt af ríkinu eða öðrum aðilum með eða án greiðsluþátttöku ríkisins.
Nokkurr styrr hefur að undanförnu staðið um áðurnefnda meðferð Jónínu sem sumir telja að standi ekki undir væntingum. Hefur Landlækni borist nokkur fjöldi kvartana vegna þessa og hefur málið nú verið sett í formlegan farveg með greinargerð sem birt var í vikunni á vefsetri embættisins.
Þar segir að allt bendi til þess að Detox-læknismeðferð brjóti í bága við læknalaga þar sem segir að öðrum en læknum bannað að taka fólk til lækninga auk heldur sem skottulækningar séu bannaðar hér á landi. Upptalning á sjúkdómum sem detox-meðferð á að hafa áhrif á byggir ekki á neinum viðurkenndum rannsóknum og er til þess fallin að gefa sjúklingum, oft með erfiða sjúkdóma, falskar vonir.Þó skuli tekið fram að í meðferðinni megi finna jákvæð atriði sem skipta máli fyrir heilsufar fólks, svo sem áherslu á hreyfingu og samveru fólks „og skal ekki gert lítið úr því,“ segir í greinargerð Landlæknis.