Alls 23 mál eru á dagskrá Alþingis í dag en þingfundur hefst nú klukkan 10. Fundur dagsins hefst með óundirbúnum fyrirspurnartíma þar sem forsætis-, dómsmála- og mannréttinda-, félags- og trygginga-, heilbrigðis- og utanríkisráðherrar eru til svara.
Meðal þeirra mála sem þingið tekur fyrir í dag eru kosning fulltrúa í kjararáð, tekin verður þriðja umræða um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands og einnig lokaumræða um frumvarp forsætisráðherra um stjórnlagaþing. Þá stendur til að ræða siðareglur fyrir Stjórnarráð Íslands, samgönguáætlun, stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir og breytingu á varnarmálalögum sem miða að því að Varnarmálastofnun verði slegin af.
Þinginu á að ljúka í dag og venju samkvæmt lýkur dagskránni með veitingu ríkisborgararéttar til útlendinga sem búsettir eru á Íslandi. Miðað er við að 35 manns fái þau réttindi, í krafti lagafrumvarpsins sem nú liggur fyrir þinginu.
„Það eru ekki brýnustu málin í þjóðfélaginu sem eru á dagskránni núna. Það stendur út af til dæmis hvernig tekið verður til dæmis á skuldamálum fyrirtækja og heimilanna,“ segir Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem telur fráleitt að þingið ljúki störfum í dag. Sjálfsögð búhyggindi séu, að hætta ekki heyskap þegar taðan liggi enn á túninu og með sama hætti sé fráleitt að þingið fari í frí þegar áður en stórmál hafi verið til lykta leidd.