„Þetta eru þrettán manns en innan við tíu stöðugildi í heildina,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík (HR), um uppsagnir vegna breytinga hjá HR í kjölfar skertra fjárframlaga ríkisins. Var fólkinu sagt upp á síðustu átta vikum. Ekki var aðeins sagt upp fólki á þeim þremur brautum sem lagðar verða niður.
Ari segir að ekki sé von á frekari uppsögnum eða aðgerðum en þeim sem þegar hafa orðið eða verið tilkynntar. Markmið aðgerðanna hafi verið að ná stöðugleika í starfi skólans og viðhalda kjarnastarfi hans í lagakennslu, viðskiptum og tækni. Um leið og færi gefist muni hefjast uppbygging á þessum sviðum.
Skólagjöld við HR munu ekki hækka að svo stöddu og var tekin ákvörðun um það í janúar að sögn Ara. Var það ákveðið í því skyni að koma til móts við nemendur í ljósi efnahagserfiðleikanna.