Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út um kl. 20:30 í kvöld til að leita að línu- og handfærabát, sem síðast heyrðist frá um hádegi í dag. Auk þess var varðskipið Týr, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum og nærstaddir bátar voru beðin um að taka þátt í leitinni.
Þegar síðast heyrðist frá bátnum var hann staddur á Boðagrunni, 40 sjómílur SV af Reykjanesi. Ítrekaðar tilraunir varðstjóra Landhelgisgæslunnar við að ná sambandi við bátinn hafa ekki borið árangur.
Samkvæmt verklagsreglum er varðstjórum þá skylt að kalla eftir aðstoð allra sjóbjörgunareininga á svæðinu. Grunur leikur á að báturinn hafa siglt út fyrir langdrægi fjareftirlitskerfisins eða um bilun í búnaði sé að ræða en ágætt veður er á svæðinu.