Fulltrúar Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og aðildarsamtaka þess og Samtaka atvinnulífsins (SA) undirrituðu í dag samkomulag um vinnustaðaskírteini og framkvæmd eftirlits á vinnustöðum.
Samkomulagið byggir á lögum sem samþykkt voru á Alþingi 11. maí sl. um sama efni sem veita heildarsamtökum vinnumarkaðarins heimild til að semja um hvaða starfsgreinar falli undir gildissvið laganna hverju sinni.
Markmið vinnustaðaskírteina og eftirlits á vinnustöðum er að tryggja að atvinnurekendur og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum.
Samkomulag ASÍ og SA tekur gildi 15. ágúst nk. Byggingastarfsemi, mannvirkjagerð, rekstur gististaða og veitingarekstur fellur undir gildissvið samkomulagsins.
Samkvæmt lögunum er eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði atvinnurekanda til að ganga úr skugga um að atvinnurekandi og starfsmenn hans starfi í samræmi við gildandi reglur.
Skal eftirlitsfulltrúunum veittur aðgangur að vinnustöðum í þeim tilgangi og skulu atvinnurekandi og starfsmenn hans sýna vinnustaðaskírteini sé óskað eftir því.
Í lögunum er kveðið á um að eftirlitsfulltrúarnir skuli senda upplýsingar þær sem fram koma á vinnustaðaskírteini til skattyfirvalda, Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins, lögreglustjóra og, þegar við á, Útlendingastofnunar og Þjóðskrár þannig að unnt sé að kanna hvort atvinnurekandi eða starfsmaður starfi í samræmi við lög.