Áhrif dóms um gengistryggingu að mestu til góðs

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon Eggert/Eggert

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggð lán muni frekar hafa góð en slæm áhrif fyrir efnahagskerfið og fjármálakerfið í heildina. „Þetta hefur auðvitað einhver þjóðhagsleg áhrif en ég fæ nú ekki betur séð en að mestu séu þau bara til góðs,“ segir ráðherra og kveðst ekki hafa áhyggjur af heildaráhrifunum á efnahagslífið.

Reiknar hann með að niðurstaðan muni koma sér vel fyrir þá sem tekið hafa lán til fremur skamms tíma en aftur á móti geti minni og sérhæfðari lánafyrirtæki lent í erfiðleikum. Hann telur að stóru bankarnir muni sleppa mun betur.

„Þó að þetta sé visst áfall fyrir stóru bankanna þá er þetta langt innan þolmarka fyrir þá, þannig að þó þetta sé ekki góðar fréttir fyrir þá er þetta engan veginn til þess fallið að slá þá út af laginu,“ segir Gylfi. Hann hyggur að sama eigi við um stærri lánafyrirtæki.

Segir hann ríkisstjórnina hafa verið búin undir þessa niðurstöðu og verið sé að kortleggja málið en ekki liggi fyrir hvort stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða vegna dómsins og hverjar þær aðgerðir yrðu. Farið verði yfir málið og næstu skref ákveðin.

Gylfi segir dóminn mikil tíðindi og fagnar því að réttaróvissunni um gengistryggingu lánsfjár hafi verið eytt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert