„Ef formaður utanríkismálanefndar [Árni Þór Sigurðsson] er þeirrar skoðunar að hvalveiðar Íslendinga séu til vandræða í aðildarviðræðum við ESB þá á hann bara að segja það berum orðum.“
Þetta sagði Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann var spurður út í orð Árna Þórs á Alþingi í gær um hvalveiðar.
Árni Þór spurði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra út í ummæli Tómasar H. Heiðars, aðalfulltrúa Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu, í Morgunblaðinu, en hann sagði að Ísland gæti ekki fallist á málamiðlunartillögu sem unnið væri að vegna fundar hvalveiðiráðsins í Marokkó 21. júní nk. Árni Þór spurði hvort Ísland myndi taka þátt í þeirri vinnu sem nú stæði yfir með það að markmiði að ná samkomulagi um málamiðlun. Össur vísaði á Jón Bjarnason, sem færi með þessi mál.