Á þessu stigi er ekki vitað nákvæmlega hversu mikil áhrifin af dóminum verða á eignir SP-Fjármögnunar þar sem ekki er skorið úr um hvernig reikna á lánin, að því er segir í yfirlýsingu frá Landsbankanum vegna dóms Hæstaréttar í máli SP-fjármögnunar.
Yfirlýsing Landsbankans vegna dóms Hæstaréttar í máli SP-Fjármögnunar:
„Samkvæmt dómi Hæstaréttar í dag, 16. júní, eru lán SP-Fjármögnunar, sem er í eigu Landsbankans, talin vera íslensk lán og gengistrygging þeirra dæmd ólögmæt. Dómur Hæstaréttar nær til gengistryggðra lána en ekki lána sem veitt eru í erlendri mynt.
Á þessu stigi er ekki vitað nákvæmlega hversu mikil áhrifin af dóminum verða á eignir SP-Fjármögnunar þar sem ekki er skorið úr um hvernig reikna á lánin. Ákveðin óvissa er því enn til staðar og er mikilvægt að henni verði eytt hið fyrsta.
Vegna óvissu við útreikning á gengistryggðum lánum SP-Fjármögnunar telur Landsbankinn mikilvægt að unnið verði að sátt í samstarfi löggjafar- og framkvæmdavalds og allra hagsmunaaðila.
Landsbankinn telur eftir sem áður að erlend lán bankans séu í samræmi við íslensk lög. Þessi dómur mun hafa áhrif á eiginfjárstöðu SP-fjármögnunar en staða Landsbankans er eftir sem áður sterk."