Eru andvígir frumvarpi Jóhönnu

Atli Gíslason á Alþingi.
Atli Gíslason á Alþingi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Atli Gíslason þingmaður VG og Ásmundur Einar Daðason, samflokksmaður þeirra beggja, leggjast allir þrír gegn frumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands.

Atli Gíslason tók til máls við fyrstu umræðu um málið nú rétt í þessu og las upp yfirlýsingu frá þeim þremenningunum.

Sagði Atli að í fyrsta lagi væri verklag við samningu og framlagningu frumvarpsins í andstöðu við handbók stjórnarráðsins um undirbúning lagafrumvarpa. Samráð eftirá og þarfagreining breytti þar engu um.

Í öðru lagi væri tímasetningin á framlagningu frumvarpsins röng. Ráðuneytin væru mjög upptekin vegna uppbyggingar Íslands eftir bankahrunið og ekki síður vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB.

Í þriðja lagi sagði Atli að frumvarpið leiddi til þess að ráðherrar VG yrðu fjórir á móti fimm ráðherrum Samfylkingarinnar í ríkisstjórn, í stað þess að skipting ráðherraembætta væri jöfn á milli flokkanna eins og hún er nú. „Það veikir pólitíska stöðu VG," sagði Atli.

Í fjórða lagi sagði hann frumvarpið grafa undan baráttu þingmanna VG gegn aðild Íslands að ESB. Bæði vegna þess að ráðherrum flokksins yrði fækkað og vegna þess að einn helsti talsmaður flokksins gegn ESB-aðild þyrfti að víkja úr ráðherrastól. Þar átti hann við Jón Bjarnason.

Í fimmta lagi stangaðist frumvarpið á við samþykkt flokksráðs VG frá því í janúar síðastliðnum, þar sem ályktað var um að áformin öll þyrfti að endurskoða, um breytingar á stjórnarráðinu.

Í sjötta lagi væri mikil andstaða við málið á landsbyggðinni og engin stór hagsmunasamtök hefðu ályktað til stuðnings við það.

Í sjöunda lagi sagði Atli að þverpólitískrar samstöðu hefði ekki verið leitað.

„Ég leggst almennt ekki gegn sameiningu og breyttri verkaskiptingu sem unnin er lýðræðislega, sem unnin er frá grunni í samræmi við fyrrnefnda handbók og ef tímasetningar séu réttar," sagði Atli, þegar hann hafði lokið upplestrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert