Hæstiréttur hefur heimilað að líkamsleifar skákmeistarans Bobbys Fischers verði grafnar upp til að skera úr um faðerni Jinky Young, stúlku frá Filippseyjum sem segir Fischer vera föður sinn. Snéri Hæstiréttur þar við úrskurði héraðsdóms frá síðasta mánuði en þar var kröfunni hafnað.
Bobby Fischer lést í janúar árið 2008 og hvílir í Laugardælakirkjugarði skammt frá Selfossi.
Hæstiréttur segir, að telja verði að hagsmunir barnsins séu ríkari friðhelgi grafreits og því féllst rétturinn á kröfuna um að framkvæmd verði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum Fischers og blóðsýnum, sem tekin hafa verið úr Jinky Young og móður hennar.