Íslandsbanki mun fara vandlega yfir dómsniðurstöðu Hæstaréttar vegna gengistryggðra bílalána og fylgjast með þeim skrefum sem stjórnvöld og Alþingi hyggjast taka í málinu á næstu dögum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá bankanum.
„Þó svo að Íslandsbanki Fjármögnun hafi ekki verið aðili málsins mun bankinn hlíta niðurstöðu dómsins og aðgerðum stjórnvalda og löggjafans í málinu ef til þeirra kemur.
Bankinn vill árétta að þrátt fyrir dómsniðurstöður Hæstaréttar hefur bankinn sterka eiginfjárstöðu og uppfyllir eftir sem áður eiginfjárkröfur FME. Íslandsbanki hefur áður lýst því yfir að þeir viðskiptavinir sem þegar hafa nýtt sér úrræði bankans vegna gengistryggðra bílalána hafa ekki fyrirgert mögulegum betri rétti sínum leiði niðurstaða Hæstaréttar eða stjórnvalda til hagfelldari niðurstöðu," segir ennfremur í yfirlýsingu Íslandsbanka .