Gufuneskirkjugarður 30 ára

Alls hafa rúmlega ellefu þúsund kistugrafir verið teknar í Gufuneskirkjugarði og rúmlega þrjú hundruð duftgrafir frá vígslu garðsins fyrir þrjátíu árum.

Væntanlega verður búið að úthluta öllum grafarstæðum í kirkjugarðinum um eða eftir árið 2020 en grafið verður í frátekin legstæði út alla öldina.

Í garðinum eru grafreitir fyrir fólk af ýmsum trúarbrögðum utan kristni, svo sem búddatrúar, íslamstrúar og ásatrúar. Einnig er reitur fyrir þá sem standa utan trúfélaga. Minnisvarði um horfna og þá sem í fjarlægð hvíla er staðsettur austan til í garðinum. Hann er hannaður af listakonunni Rúrí og kýs hún að kalla hann Hlið. Minnisvarðinn er til minningar um „þá sem lögðu af stað í ferð en fundu aldrei leiðina til baka,“ eins og það er orðað.

Friðfinnur Ólafsson, forstjóri Háskólabíós var jarðsettur fyrstur manna í Gufunesi og er hann svonefndur vökumaður garðsins.

Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma hafa umsjón með Gufuneskirkjugarði en þar vinna sjö starfsmenn við garðyrkju- og skrifstofustörf. Tæplega 60 sumarstarfsmenn eru þar að störfum yfir sumartímann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert