Fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, segir að fjármálaráðuneytið hafi ekki aflað lögfræðiálits, hvorki innan húss né utan, um lögmæti gengistryggðra lána. Er þetta svar ráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur, Framsóknarflokki. Vísar ráðherra til svars efnahags- og viðskiptaráðherra, við nánast samhljóða fyrirspurn sem Eygló hafði áður sent til hans.
Eygló spurði einnig hvers vegna ráðuneytið hafi ekki aflað slíks álits en í svari Gylfa Magnússonar, efnahags og viðskiptaráðherra kemur fram að þar sem þessi málefni eru nú til meðferðar hjá dómstólum telji efnahags- og viðskiptaráðuneytið ekki ástæðu til að afla álits af þessu tagi. Þau mál sem um ræðir eru enn til meðferðar hjá Hæstarétti.