Hæstiréttur féllst ekki á kröfu NBI í dag sem fór fram á að bú Þráins ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Er þetta í samræmi við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í lok apríl. Var krafa NBI byggð á kyrrsetningargerð sem lokið hafði verið án árangurs.
Talið var að sýslumanni hafi brostið heimild til að ljúka kyrrsetningargerðinni án árangurs nema áður yrði staðreynt með virðingu hans eða tilkvaddra sérfræðinga að krafa NBI væri hærri en sem næmi verðmæti fasteigna þeirra er Þráinn ehf. hafði sett til tryggingar skuldum sínum við bankann og þess sem hefði getað staðið utan veðbanda og unnt var að gera kyrrsetningu í. Hefði því verið ástæða til að ætla að árangurslausa kyrrsetningin hefði ekki gefið rétta mynd af fjárhag Þráins ehf.
Um var að ræða fimm lán sem einkahlutafélagið hafði tekið hjá bankanum auk fleiri skulda en hann hafði sett fasteignir að veði.
NBI lagði fyrir sýslumanninn í Reykjavík beiðni 23. nóvember 2009 um kyrrsetningu hjá einkahlutafélaginu sem um ræðir til tryggingar skuldum, sem hann kvað nema samtals 842.119.825 krónum að höfuðstól auk vaxta og kostnaðar að fjárhæð 9.177.810 krónur. Samkvæmt beiðninni áttu þessar skuldir rætur að rekja til áðurnefndra fimm lánssamninga, auk þess sem bankinn kvað Þráinn standa í nánar tiltekinni skuld við sig vegna yfirdráttar á tékkareikningi.
Í beiðninni kom fram að NBI teldi heildarverðmæti framangreindra trygginga, sem settar hafi verið fyrir skuldum viðkomandi, nema 771.754.226 krónum og skorti því nærri 80.000.000 krónur á að þær nægðu fyrir skuldunum ef ekki væri tekið tillit til óvissu um verðgildi viðkomandi eigna.
Bankinn lét þess einnig getið að hann hafi áætlað heildarsöluverðmæti eigna Þráins ehf. samtals að fjárhæð kr. 474.702.878 og væri því „engum vafa undirorpið að tryggingar væru mun lægri en skuldirnar. Hins vegar var ekki um sérfræðiálit að ræða á mati á fasteignunum og því skorti lagaheimild til kyrrsetningarinnar.