Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands sem gekk fyrr í dag er öll gengistrygging lánsfjár óheimil, ekki aðeins gengistrygging þeirra lána sem um var að ræða í þeim málum sem dæmd voru. Hefur Hæstiréttur þannig tekið af allan vafa um það hvort heimilt sé að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.
Felur dómurinn í sér afdráttarlaust fordæmi um aðra samninga sem kveða á um gengistryggingu.
Í reifun á dómi í máli Lýsingar hf. á vef Hæstaréttar segir orðrétt:
„Talið var að vilji löggjafans kæmi skýrlega fram í
því að í orðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 væri eingöngu mælt fyrir um
heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar væri ekkert rætt
um þær tegundir sem óheimilt væri að beita. Lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að
lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra
gjaldmiðla.“