Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, vill að íslensk stjórnvöld sendi Kínastjórn skýr skilaboð um að nánari samvinna ríkjanna þýði ekki að horft verði framhjá mannréttindabrotum.
Tilefnið er gjaldeyrisskiptasamningur ríkjanna en kínverski seðlabankinn hefur aðeins gert slíka samninga við sjö önnur ríki.
Ögmundur telur að þótt velvilji kunni að ráða för að þessu sinni sé morgunljóst að Kínverjar hafi augastað á að ná fótfestu á Íslandi.
„Kínverjar eru þekktir fyrir að hugsa sín utanríkismál með langtímahagsmuni í huga. Það er margt sem bendir til þess að Kínverjar hafi fyrir nokkru síðan fengið aukinn áhuga á Íslandi. Þá hugsanlega vegna legu landsins sem lands utan hinna stóru bandalaga.“