Jóhanna Sigurðardóttir mælti á Alþingi fyrir frumvarpi sínu um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nú á tólfta tímanum. Mælir frumvarpið fyrir um margs konar breytingar á skipulagi stjórnsýslunnar og er gert ráð fyrir því, eins og fram hefur komið, að árleg sparnaðaráhrif frumvarpsins verði á endanum um 360 milljónir króna.
Sjálfstæðismenn byrjuðu á því að gagnrýna verklagið við vinnslu frumvarpsins. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagði verið að koma fram með frumvarp um breytingar á stjórnsýslunni áður en starfshópur þingsins væri búinn að vinna úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis með tilliti til þess hvaða breytingar væri nauðsynlegt að gera á stjórnsýslunni.
Þegar þar að kæmi myndi þingið sjálft ákveða það hvernig og hvenær stjórnsýslunni ætti að breyta og ráðherra gæti ekki óskað þess að málið færi í gegn strax á haustþingi, óháð því hvernig vinnu þingsins við að meta þörfina á stjórnsýslubreytingum miðar.
Bjarni segir að sameining heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytisins þýði að til verði allt of umsvifamikið ráðuneyti en í einhverjum tilvikum sé skynsamlegt að sameina ráðuneyti. Hann segir grundvallaratriði að auðlindamálefni verði ekki undanskilin frá atvinnumálaráðuneyti.
Einar Kr. Guðfinnsson, samflokksmaður Bjarna, sagði byrjað á röngum enda, þegar kæmi að samráðinu um innihald frumvarpsins. Jóhanna væri að leggja fram frumvarp sem hún ætlaði í megindráttum að láta verða óbreytt að lögum, en ennþá væri eftir að hafa nokkuð samráð við þá sem við lögin ættu að búa.
Jóhanna svaraði því til að ítarlega væri farið yfir það í greinargerð hvernig samráðinu ætti að hátta. Hún legði einmitt áherslu á að málið kæmist í gegnum fyrstu umræðu og til nefndar, svo hægt væri að kalla eftir umsögnum hagsmunaaðila og þeirra sem málið varðar og þar mundi samráðið hefjast.
Hún hafnaði því til að mynda að búið væri að ákveða nokkuð um það hvort flytja ætti Hafrannsóknastofnunina til nýs umhverfis- og auðlindaráðuneytis, kljúfa hana upp eða halda henni óbreyttri. Það hefði aldrei verið ákveðið og leita ætti samráðs um það hvaða leið væri best í því efni.
Hún sagði það rangt að hún ætlaði sér að láta frumvarpið í meginatriðum verða að lögum óbreytt.